19. apríl 2006. Guðmundur A. Guðmundsson: Margæsir á ferð og flugi

19. apríl 2006. Guðmundur A. Guðmundsson: Margæsir á ferð og flugi

Þessa dagana fjölgar margæsum hratt á vestanverðu landinu. Margæsir eru fargestir á Íslandi á leið sinni til og frá varpstöðvum sínum í heimsskautahéruðum NA-Kanada. Á vorin koma fyrstu fuglar frá Írlandi í byrjun apríl og þeim fjölgar jafnt og þétt til 10. maí að hámarki er náð. Gæsirnar dvelja víða með ströndum Faxaflóa og við sunnanverðan Breiðafjörð uns þær hverfa allar á braut síðustu daga maímánaðar. Þá eiga þær fyrir höndum erfitt flug á varpstöðvar sínar, um 3000 km leið, sem oft er farin nær viðstöðulaust á um þremur sólarhringum. Leiðin liggur þvert yfir Grænlandsjökul í allt að 2400 metra hæð yfir sjó. Sá hluti leiðarinnar er mjög krefjandi og eiga spikfeitar gæsirnar oft í mestu erfiðleikum að klifra í nægilega hæð til að komast yfir hábungu jökulsins. Flugið gengur mun hraðar fyrir sig eftir það.

Sumarið er stutt á heimsskautasvæðum, gróður skammt á veg kominn í byrjun sumars og jafnvel jarðbönn þegar fuglarnir koma á varpstöðvarnar. Margæsir, eins og margar aðrar gæsategundir er verpa á norðlægum slóðum, flytja með sér forða af farstöðvum sínum til varpstöðvanna (e. capital breeders). Þær bera með sér orkuforða sem nýtist þeim til þess að mynda egg og verpa skömmu eftir komuna á varpstöðvarnar. Þess vegna eru aðstæður og fæðuframboð á viðkomustöðum á farleiðinni afar mikilvægar fyrir viðgang stofnsins. Ísland gegnir slíku lykilhlutverki fyrir margæsir og nokkra aðra hánorræna fuglastofna. Staðsetning Íslands norðarlega í Atlantshafi og milt loftslag hér gerir það að verkum að skilyrði til forðasöfnunar fyrir áframhaldandi flug eru mjög hagstæð. Án Íslands mundi farleið fugla milli V-Evrópu og V-Grænlands/N-Kanada vera mun fáfarnari og tegundir eins og blesgæs og margæs ættu þess ekki kost að fara þessa leið og ljúka varpi. Þessir stofnar væru einfaldlega ekki til. Ísland er því einskonar flöskuháls á þessari farleið og er ábyrgð okkar afar mikil. Friðun lykil fæðuöflunarsvæða fyrir þessar tegundir og vernd búsvæða þeirra er því afar mikilvæg, svo þeir líði ekki undir lok.

Síðan 1992 hafa 32 margæsir af þeim stofni sem fer um Ísland verið merktar meðgervihnattasendum og fylgst með ferðum þeirra til og frá landinu. Unnið er að merkingum 10 fugla til viðbótar með samskonar sendum á Írlandi þessa dagana. Sagt verður frá niðurstöðum þeirra athugana, fjölda og dreifingu margæsa hérlendis, athugunum á litmerktum fuglum og vistfræði þeirra meðan á vordvöl þeirra stendur. Rannsóknir á fari margæsa um Ísland hafa síðustu fimm ár verið unnar í náinni samvinnu við bresku náttúruverndarsamtökin Wildfowl and Wetlands Trust (WWT).

Fræðsluerindi Náttúrufræðistofnunar eru opin öllum.