6. mars 2019. Sigurður H. Magnússon: Vöktun þungmálma og brennisteins í mosa á Íslandi

Sigurður H. Magnússon gróðurvistfræðingur flytur erindi á Hrafnaþingi miðvikudaginn 6. mars 2019 kl. 15:15.

Í erindinu verður fjallað um niðurstöður vöktunar á styrk þungmálma og brennisteins í tildurmosa (Hylocomium splendens) á Íslandi. Vöktunin er hluti af evrópsku verkefni sem unnið er í þeim tilgangi að kortleggja uppsprettur mengandi efna í andrúmslofti og fylgjast með dreifingu þeirra og breytingum. Hér hefur mosa verið safnað víðs vegar um land á fimm ára fresti frá 1990. Styrkur efna hefur einnig verið vaktaður um skeið við álverin í Straumsvík, á Grundartanga og í Reyðarfirði og í litlum mæli við jarðvarmavirkjanir. Árið 2015 hófst vöktun einnig við við kísilverin á Bakka við Húsavík og í Helguvík á Reykjanesskaga. Frá upphafi hefur styrkur Cd, Cr, Cu, Fe, Ni, Pb, V og Zn verið mældur og frá 1995 einnig As, Hg og S en árið 2015 var efnunum B og Sb bætt við. Fundin voru bakgrunnsgildi og reiknaðir mengunarstuðlar fyrir hvert efni.

Niðurstöður sýna að styrkur margra efna er misjafn eftir svæðum, yfirleitt er hann minnstur á Vestfjörðum og Norðvesturlandi en einna hæstur á gosbeltinu og við iðjuverin í Straumsvík, á Grundartanga og í Reyðarfirði. Þá kemur fram að frá 1990 hafa nokkrar breytingar orðið á styrk efna. Á landsvísu hefur styrkur kopars (Cu) og kadmíns (Cd) lækkað og sama má segja um blý (Pb) sem hefur þó hækkað lítils háttar á ný. Styrkur króms hefur heldur hækkað en styrkur annarra efna lítið breyst eða er breytilegur eftir árum. Við álverin eru helstu breytingar þær að styrkur arsens (As) og nikkels (Ni) hefur hækkað í Reyðarfirði.

Niðurstöður benda til þess að helstu uppsprettur efna sem mælast í mosa hér á landi séu eldgos (As, S) áfok af lítt grónum svæðum (Cr, Cu, Fe, Ni, V), álver (As, Ni, S, Sb), annar iðnaður (Cr, Cu, Fe, Pb, V, Zn) og jarðvarmavirkjanir (As, S). Erlendis frá berast hingað þungmálmar með loftstraumum en í frekar litlum mæli (Cd, Pb).

Gosið í Holuhrauni sem hófst í lok ágúst 2014 og stóð í um sex mánuði hafði mikil áhrif á styrk brennisteins í tildurmosa en skemmdir komu fram á mosanum á stórum hluta landsins.

Skemmdir á mosa komu fram við öll álverin og á nokkrum stöðum hafði hann horfið þar með öllu, líklega vegna efnaálags. Orsakir mosaskemmda eru ekki að fullu ljósar en verulegar líkur eru á að helsti áhrifavaldurinn sé brennisteinn en flúor getur einnig átt þar hlut að máli. Í nágrenni iðnaðarsvæðanna í Straumsvík, á Grundartanga og í Reyðarfirði má gera ráð fyrir að fleiri efni komi við sögu.

Niðurstöðurnar benda til þess að á og við iðnaðarsvæðið Hellnahrauni í Hafnarfirði sé talsverð mengun en þar er styrkur margra efna (Cr, Cu, Fe, Pb, Zn) hlutfallslega hár sem að öllum líkindum má rekja til málmiðnaðar á svæðinu. Inn á svæðið berast einnig efni í allmiklum mæli frá álverinu í Straumsvík (As, Ni, Sb, S). Mengun á þessu svæði er áhyggjuefni því að áhrif álversins og þess iðnaðar sem rekinn er í Hellnahrauni ná að hluta til inn í íbúðabyggð á Völlunum austan við iðnaðarhverfið og álverið.

Fyrirlesturinn á Youtube