Áhrif norðurljósa á GPS/GNSS mælingar

Norðurljós eru undurfallegar ljósabreytingar á himni sem myndast þegar rafhlaðnar agnir frá sólinni rekast á segulsvið jarðar. Norðurljós eru því ekki bara fögur heldur geta þau haft veruleg áhrif á rafsegulbylgjur og þar með GPS/GNSS mælingar. 

Einn helsti mælikvarðinn til að fylgjast með áhrifum sólvinds og norðurljósa á segulsvið jarðar er Kp-vísitalan (e. Kp index). Kp-vísitalan er mælikvarði á styrk segulstorma og gefur upplýsingar um virkni í jónahvolfinu, sem er mikilvægt fyrir GPS kerfi. Vísitalan er mæld á skala frá 0 til 9, þar sem hærri gildi tákna meiri segulstorma og þar með auknar líkur á truflunum á GPS merki. Þegar vísitalan fer yfir 5 má gera ráð fyrir truflunum, þá sérstaklega við nákvæmar GPS mælingar. 

Þann 12. september 2024 fór Kp-vísitalan upp í 7 og urðu mælingamenn Náttúrufræðistofnunar varir við miklar truflanir í IceCORS leiðréttingarkerfinu þar sem ekki var hægt að nálgast stöðuga rauntímaleiðréttingu. Mikilvægt er fyrir mælingamenn að vera meðvitaðir um þessa hættu og mæla ekki við þessi skilyrði sé þess kostur.

Nánari upplýsingar fyrir áhugasama er að finna á eftirfarandi heimasíðum. 

Segulrannsóknastofan í Potsdam 

Haf- og veðurstofa Bandaríkjanna