Vísindagrein um frjókornaspár

Í vísindaritinu Allergy birtist á dögunum grein sem fjallar um frjókornaspár. Teikn eru á lofti um að loftslagsbreytingar af mannavöldum geti haft áhrif á líffræði platna og framleiðslu frjókorna sem valda ofnæmi.

Í greininni er fjallað um hvernig frjókornaspár geta komið að gagni fyrir einstaklinga sem þjást af frjókornaofnæmi en spárnar gera fólki kleift að búa sig undir tímabil þegar styrkur frjókorna í andrúmslofti er hár og bæta þannig lífsgæði sín.

Í rannsókninni voru notuð háþróuð tölvulíkön til að útbúa nákvæmari frjókornaspár en spár gerðar með eldri aðferðum. Spáð var fyrir um daglegan heildarstyrk frjókorna, allt að 14 dögum fram í tímann, í 23 borgum í öllum fimm heimsálfunum. Bestu spárnar reyndust vera fyrir borgir eins og Santiago í Chile og Genf í Sviss, en erfiðara reyndist að útbúa nákvæmar spár fyrir staði eins og Bahía Blanca í Argentínu og Seoul í Suður-Kóreu. Á meðan eitt tölvulíkan virkaði best fyrir skammtímaspár var annað betra fyrir langtímaspár. Í Reykjavík gaf eitt líkanið góðar niðurstöður en sama líkan gaf ekki jafn góða raun í öðrum borgum. Lykilumhverfisþættir til að fá sem nákvæmastar spár eru til dæmis gögn um fyrri frjókornamælingar og hitastig.  

Á heildina litið er rannsóknin mikilvægt verkfæri fyrir óvissutíma framundan vegna loftslagsbreytinga. Sú þekking sem skapaðist er mikilvæg til að halda áfram að þróa og bæta frjókornaspár framtíðarinnar.

Ewa Przedpelska-Wasowicz og Ellý Renée Guðjohnsen lögðu sitt af mörkum við rannsóknina og eru meðal höfunda greinarinnar.

Greinin er öllum opin á netinu:

Forecasting daily total pollen concentrations on a global scale