Nýtt starfsfólk

Dr. Agnes-Katharina Kreiling hefur verið ráðin til Náttúrufræðistofnunar sem umsjónarmaður Mývatnsrannsókna- og vöktunar. Mývatnsrannsóknir heyra nú undir nýja Náttúrufræðistofnun eftir sameiningu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn og Landmælinga Íslands þann 1. júlí 2024. Agnes byrjar snemma árs 2025 en hún tekur við af Dr. Árna Einarssyni sem lætur af störfum eftir 50 ára samfellda starfsævi við Náttúrurannsóknastöðina við Mývatn.

Dr. Agnes Kreiling lærði líffræði og vistfræði við háskólann í Freiburg og nam síðan ferskvatnsfræði við Háskóla Íslands og Háskólann á Hólum þar sem hún  lauk doktorsprófi undir handleiðslu Dr. Bjarna Kristófers Kristjánssonar. Doktorsverkefni hennar fjallar um lífríki í ferskvatnslindum á Íslandi. Einnig var hún lærlingur í Ramý sumarið 2013 þar sem hún sinnti hefðbundinni vöktunarvinnu og sá um ýmsar hliðar á starfseminni. Mývatnssveitin og lífríki hennar er henni því vel kunnug. Eftir nám hefur Agnes starfað sem kennari hjá Háskóla Íslands og sem sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun. Síðustu ár hefur hún búið og starfað í Færeyjum, m.a. sem skordýrafræðingur hjá Tjóðsavnið í Færeyjum (Faroe Islands National Museum).

Agnes er gift Leivur Janusi Hansen líffræðingi og saman eiga þau soninn Oskar. Fjölskyldan hyggst flytja frá Færeyjum í Mývatnssveit snemma á næsta ári. Við óskum þeim heilla og velfarnaðar í sínum störfum.

Leivur Janus Hansen hefur verið ráðinn sem sérfræðingur í fuglavistfræði til Náttúrufræðistofnunar í hálft starf. Hann nam vistfræði við Háskólann í Lundi þar sem hann útskrifaðist með mastersgráðu árið 2002 og hefur síðan unnið sem deildarstjóri við Tjóðsavnið. (Faroe Islands National Museum).