Mikil fækkun fálka!

Varpstofn fálka hefur verið vaktaður frá árinu 1981 á Norðausturlandi. Niðurstöður 2024 sýna að varpstofninn hefur ekki verið minni frá upphafi vöktunar 1981, einnig að viðkoman í ár var sú lakasta frá upphafi mælinga. Ástæðan fyrir lélegri viðkomu var tíðarfar á varptíma og ungatíma. Fækkun í stofni á sér lengri sögu og nær allavega fjögur til fimm ár aftur í tímann og þar ráða önnur öfl en vorhret. Varpstofn fálka á Norðausturlandi hefur minnkað um 45% frá 2019 eða um 11% að jafnaði á ári. Tvær aðrar stofnvísitölur eru til fyrir fálka og endurspegla ástandið á Íslandi öllu og ná til allra aldurshópa í fálkastofninum, báðar þessar vísitölur lýsa einnig mikilli fækkun fálka frá 2021. Önnur vísitalan, sem fengin er úr svokölluðum vetrarfuglatalningum, sýnir fækkun sem nemur 57% til ársloka 2023 eða að jafnaði 22% á ári. Hin vísitalan, sem byggir á skráningum fuglaáhugamanna á vefsíðuna eBird, sýnir fækkun frá 2021 til ágúst 2024 sem nemur 78% eða að jafnaði 32% á ári. Það er því engin efi að fálkum hefur fækkað mikið á síðustu árum og í raun er hægt að tala um hrun í stofnstærð fálka. Það er hækkun affalla frekar en viðkomubrestur sem ræður þessari miklu fækkun. Nokkrar mögulegar skýringar á auknum afföllum koma til greina en líklegast er að fuglaflensa hafi herjað á fálkastofninn allavega frá 2021. 

Hvað er til ráða og hvernig á að bregðast við þessu ástandi? Til að undirstrika alvöru málsins þá mun Náttúrufræðistofnun meta hvort endurskilgreina eigi stöðu fálkans á Válista. Fálkinn er núna skilgreindur sem tegund í nokkurri hættu (VU). Jafnframt verður unnið með sérfræðingum og hagaðilum að því að greina betur orsakir fækkunar fálka, meta verndarstöðu og gera tillögur að umbótum í vöktun og rannsóknum á tegundinni til þess að skilja megi betur lýðfræði stofnsins. 

Fréttatilkynning um vöktun fálka 2024 (pdf)