Vöktun refa 2024

Í árlegri vöktun refa á Hornströndum sem fram fór í lok júní og fyrri hluta júlí kom í ljós að ábúð refa var með besta móti, öll hefðbundin óðul voru setin og got í þeim flestum. Fuglalíf virtist hafa beðið hnekki eftir kuldakast sem gekk yfir norðanvert landið í byrjun júní og leituðu refir fæðu í fjörum þar sem ýmislegt hafði rekið á land eftir stórviðrið.

Refir eru vaktaðir á Hornströndum á hverju ári, sem hluti af verkefninu Vöktun náttúruverndarsvæða. Verkefnið er tvískipt. Í fyrri hlutanum eru þekkt greni vöktuð og athugað með ábúð og gotstærð, ásamt því að fylgst er með atferli ferðamanna og refa við valin greni og það skráð. Hinn hluti verkefnisins felst í að leita grenja á norðausturhluta Hornstranda, á svæði sem nær frá Álfsfelli í vestri til Hornbjargsvita í austri, ásamt því að meta ábúð og gotstærð. 

Vöktun grenja fór fram dagana 24.–29. júní. Siglt var með Sjöfn, farþegaskipi Sjóferða, frá Ísafirði til Hornvíkur þar sem hópurinn dvaldi vikulangt í tjaldbúðum með leyfi landeigenda að Horni. Helstu niðurstöður eru þær að ábúð refa var með besta móti, öll hefðbundin óðul voru setin og got í þeim flestum. Yrðlingar voru að meðaltali 4–5 á hverju greni, fæstir tveir en flestir átta. Á tveimur grenjum voru yrðlingarnir stórir og þegar vandir af spena um mánaðarmótin júní-júlí. Aðrir voru smærri og flestir enn háðir móðurmjólkinni þegar athugunum lauk þann 13. júlí.

Veðrið var ágætt fyrstu vikuna, um 5–6 gráðu hiti, þurrt og ekki of vindasamt en í lok júní fór að rigna. Júlí byrjaði með vætu og nokkrum vindi en þó stytti upp og birti til á milli svo að sól skein í heiði í tvo heila daga. Undir lok rannsóknarinnar tók vind að herða á ný og þann 12. júlí brast á með gríðarlegu roki að sunnan svo nokkur tjöld á tjaldsvæðinu í Hornvík hreinlega brotnuðu í mestu hviðunum. Oft kemur sumarið með hvelli á Hornströndum í byrjun júlí en í ár má segja að veðrabrigðin hafi verið nokkuð snarpari en venjan er. Veðrið hefur áhrif á fjölda og atferli ferðamanna á svæðinu en áhrif á lífríki geta verið mismunandi.

Hretið sem gekk yfir norðanvert landið í byrjun júní virðist hafa komið illa niður á fjölda fugla sem verpa í Hornbjargi því margar syllur sem vanalega eru þéttsetnar voru nú auðar. Kuldinn var viðvarandi og reyndar var nýfallinn snjór niður í miðjar fjallshlíðar þegar siglt var inn í Hornvík þann 24. júní. Kjóapar sem býr í Innstadal og hrafnapör, sem eru yfirleitt um 4–5  í Hornbjargi, virtust einnig hafa orðið fyrir skakkaföllum. Ekki varð vart við hrafnsunga en um 35 geldhrafnar fóru um svæðið daglega og stök pör héldu sig á hefðbundnum óðulum í bjarginu. Ekki sást eða heyrðist til fálka í Hornbjargi. Mófuglar sáust á hefðbundnum svæðum en ungar sáust lítið sem ekkert. 

Bágt ástand hjá fuglum þýðir að fæða fyrir hratt vaxandi yrðlinga gæti orðið af skornum skammti. Þegar veðrið var sem verst með tilheyrandi brimi rak þó heilmikið af fiski (þorsk- og steinbítshausar) og dauðum fuglum í fjörur og mikið hrannaðist upp af þangi. Aðgangur að góðum rekafjörum og rotnandi þangi með kræklingi, þangflugulirfum og marflóm, getur skipt sköpum. Daglega mátti sjá refi róta í þangi og sumar læður fengu yrðlingana með sér og virtust sýna þeim hvernig þeir gætu náð sér í æti í þarabunkum. Er það góðs viti að yrðlingar geti lært að bjarga sér á eigin spýtur og nýta það sem í boði er. 

Gera má ráð fyrir að einungis hluti yrðlinganna sem sáust í júlíbyrjun lifi fram á haustið því það er einfaldlega ekki næga fæðu að hafa til að þeir komist allir á legg, þó vel hafi gengið í upphafi sumars. Langflest fullorðin dýr litu út fyrir að vera heilbrigð og voru aðeins örfá þeirra enn með vetrarfeld á síðum. Á tveimur grenjanna voru svokallaðar hjálparlæður en það eru yfirleitt ársgamlar dætur sem fá að vera áfram á óðali foreldranna. Ein uppkomnu dætranna var afar afkastamikil veiðikló og kom sífellt færandi hendi. Grenlæðan var misánægð með framlagið en yrðlingarnir voru kampakátir þegar hún kom á grenið, hvort sem hún var með æti eða lék við þá. Líklegt er að unga læðan taki yfir óðal foreldra sinna þegar hún fær tækifæri til þess og verður hún þá með forskot á önnur dýr hvað varðar þekkingu á svæðinu, hvaða bráð er þar að finna og helstu veiðistöðum.

Við Hornbjargsvita voru tvö spök dýr á vappinu, læða og steggur, en þau virtust ekki vera með yrðlinga þar. Vitað er um greni í Axarfjalli sem er sunnan við vitann og mögulega voru þau með yrðlinga þar. Rannsóknarsvæði vöktunarinnar nær þó ekki lengra en að vitanum svo ekki var leitað að því greni. Í Hornvík voru átta óðul setin, þar af fimm í bjarginu og eitt í Höfn (vestan megin víkurinnar). Í Rekavík var eitt par með átta yrðlinga og eina hjálparlæðu sem færði björg í bú. Í Hvannadal var eitt par með tvo yrðlinga, í Hælavík voru fjögur pör með yrðlinga og í Hlöðuvík eitt par með yrðlinga, þar sem Álfsfell markar vesturenda vöktunarsvæðisins.

Árið í ár virðist því hafa verið hagstætt refum, að minnsta kosti grendýrum. Lítið sást af hlaupadýrum fyrir utan geldlæðurnar tvær og fullorðnu dýrin fjögur sem héldu til á einu óðalinu. Afföll yrðlinga þetta sumarið eiga eftir að koma í ljós en verði þau með minna móti ætti refastofninn á Hornströndum að halda áfram að styrkjast eins og undanfarin tvö ár.

Umsjón með vöktun refa á Hornströndum hefur Ester Rut Unnsteinsdóttir, spendýravistfræðingur Náttúrufræðistofnunar. Aðrir þátttakendur í verkefninu voru: Ingvi Stígsson og Hafrún Gunnarsdóttir frá Íslandi, Karen Scanlon frá Bandaríkjunum, Ilias Parthenios frá Grikklandi og Charlotte Dix, Rachael Tarr og William Moody frá Bretlandi.