Nýjar tegundir í Surtsey

Skordýrafræðingur Náttúrurfræðistofnunar hefur fundið þrjár nýjar smádýrategundir í árlegum leiðangri líffræðinga í Surtsey þar sem árleg vöktun á landnámi plantna og dýra fer fram.

Um er að ræða tegundirnar fíflalús,  Uroleucon taraxaci, mýrasnigil, Deroceras leave, og dvergloddu, Trichoniscus pusillus

Fíflalús er nýlegur landnemi á Íslandi og hefur aldrei áður fundist á Suðurlandi. Tegundin lifir á túnfíflum  og er gjarnan að finna í görðum og í skógrækt.

Mýrasnigill finnst á láglendi í öllum landshlutum hér á landi en útbreiðslan er þó illa kortlögð. Tegundin lifir á plöntum og plöntuleifum og er að finna þar sem nægur raki er, t.d. í mýrlendi og á lækjarbökkum og miklu gróðurþykkni sem heldur vel rakanum.

Dverglodda er að finna syðst á  landinu, frá Hafnarfirði austur í Hornafjörð, auk þess sem hún hefur fundist á einum stað í Borgarfirði. Hana er að finna þar sem rakastig er hátt, t.d. í gróðursverði í laufskógabotnum, undir lurkum og steinum og fleiri stöðum, en einnig þar sem jarðhita gætir.

Frekari fréttir af leiðanginum til Surtseyjar birtast að honum loknum.