Ný Náttúrufræðistofnun tekur til starfa í dag

Ný sameinuð stofnun fyrrum Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, undir heitinu Náttúrufræðistofnun, tekur til starfa í dag, 1. júlí.

Lög um sameiningu stofnananna þriggja voru samþykkt á Alþingi 14. maí sl. Verkefni nýrrar stofnunar verða þau sömu og stofnanna þriggja og starfsstöðvar verða á fimm stöðum á landinu; Akranesi, Akureyri, Mývatnssveit, Breiðdalsvík og Garðabæ.

Unnið er að nýju merki fyrir stofnunina og nýr vefur verður opnaður með haustinu á slóðunum www.natt.is og www.natturufraedistofnun.is. Þangað til er bent á vefi fyrirrennara nýrrar stofnunar, www.ni.is, www.lmi.is, www.ramy.is. Netföng starfsfólks fá endinguna @natt.is frá og með deginum í dag en eldri netföng verða áfram virk í einhvern tíma.

Jákvæðni og samheldni hefur einkennt undirbúning sameiningarinnar og er starfsfólk nýrrar Náttúrufræðistofnunar spennt fyrir framtíðinni og auknum slagkrafti í þau mikilvægu verkefni sem ný Náttúrufræðistofnun sinnir.