Frjótími grasa í hámarki

Frjótími grasa stendur nú sem hæst á Íslandi. Þeir sem þjást af frjóofnæmi eru líklegir til að finna fyrir einkennum.

Grasfrjókornatímabilið er nú um það bil hálfnað en það stendur yfirleitt frá lokum júní til ágústloka, stundum fram í september. Núna er jafnframt það tímabil sem flest frjó finnast í loftinu. Ástæðan fyrir löngu frjókornatímabili grasa er sú að frjótími margra mismunandi grasategunda skarast. Grös sem framleiða ofnæmisvaldandi frjó er að finna víðast hvar um landið og þar sem grasfrjó eru létt berast þau auðveldlega með vindi. Þannig getur fólk komist í snertingu við frjókorn víða að og fengið ofnæmisviðbrögð, jafnvel þótt það sé ekki með ofnæmi fyrir grasinu sem vex nálægt heimili þess. 

Frjótími plantna er nátengdur vaxtarskeiði sem stjórnast af hitastigi og úrkomu. Langt frjótímabil þýðir ekki alltaf fleiri frjókorn í lofti, því staðbundnar aðstæður hafa líka áhrif á framleiðslu frjókorna. Þá hafa veðurskilyrði áhrif á framleiðslu og dreifingu frjókorna og valda sveiflu í framleiðslu þeirra frá degi til dags. 

Ef fjöldi frjókorna nær 50 kornum á rúmmetra andrúmslofts er líklegt að 90% þeirra sem hafa frjókornaofnæmi sýna einkenni. Viðkvæmnari einstaklingar þurfa einungis örfá korn til að framkalla ofnæmisviðbrögð. Einkenni frjókornaofnæmis eru meðal annars hnerri, nefrennsli, kláði í nefi og erting í augum. Önnur einkenni geta verið þreyta, svefnerfiðleikar, höfuðverkur, slen og almenn vanlíðan.

Á meðan frjótími grasa stendur yfir geta næmnir einstaklingar fengið ofnæmisviðbrögð eftir að hafa neytt ýmiss konar matvæla. Þeir sem hafa ofnæmi fyrir ákveðnum grösum gætu fundið fyrir kláða eða bólgu í munni þegar ákveðinnar fæðu er neitt, til dæmis jarðhneta, kornvara, grænmetis og ávaxta, því prótín í sumum grösum líkjast prótínum matvæla úr þessum fæðuflokkum. Til að draga úr einkennum gæti hjálpað að elda eða afhýða þessi matvæli, til dæmis gætu ferskir tómatar valdið ofnæmisviðbrögðum en eldaðir tómatar og sósur úr þeim ekki.