Nýtt sjálfvirkt frjóvöktunarkerfi í Garðabæ

Sjálfvirkt frjóvöktunarkerfi var í dag sett upp á þaki húsnæðis Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti í Garðabæ. Með nýja tækinu verða niðurstöður mælinga tiltækar innan nokkurra mínútna á vef stofnunarinnar.

Vegna vaxandi eftirspurnar eftir rauntímagögnum um fjókorn í lofti hefur Náttúrufræðistofnun Íslands undanfarin ár unnið að því að færa vöktun frjókorna úr vikulegum handvirkum talningum yfir í sjálfvirkt vöktunarkerfi sem gefur upplýsingar um leið og gagna er aflað. Sjálfvirkar frjómælingar hófust á Akureyri seinnipart sumars 2022 og nú hafa sjálfvirkar mælingar einnig hafist í Garðabæ. 

Frjóvöktunarkerfið heitir SwisensPoleno Mars og er frá fyrirtækinu Swisens. Með því er staðbundinn styrkur frjókorna mældur allan sólarhringinn og byggist greining frjókorna á stafrænni heilmyndun (e. holography), þar sem þrívíddarmyndir eru útbúnar með leysigeisla og greining frjókorna fer fram með notkun gervigreindar. 

Almenningur mun innan tíðar fá aðgang að mun betri upplýsingum um frjókorn en áður þar sem gögn um niðurstöður mælinga verða aðgengileg um leið og þeirra er aflað,  á grafi sem uppfært er á klukkustundarfresti. Þessi hraða miðlun upplýsinga gefur mun betri og nákvæmari mynd af þeim frjókornum sem eru í lofti hverju sinni og vonast er til að það gagnist jafnt einstaklingum með frjóofnæmi sem og heilbrigðisstarfsmönnum betur. Niðurstöður úr sjálfvirka frjóvöktunarkerfinu munu jafnframt auka gæði frjókornaspár sem segir til um hvaða frjókorna má vænta í andrúmsloftinu næstu daga og í hve miklu magni. 

Sjálfvirku frjóvöktunarkerfin á Akureyri og í Garðabæ voru sett upp með stuðningi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins.