Endurskoðuð útgáfa korts af vistgerðum á landi

Í lok mars 2024 gaf Náttúrufræðistofnun Íslands út endurskoðaða útgáfu vistgerðakorts af vistgerðum á landi. Um er að ræða 3. útgáfu landvistgerðakorts  sem er á rastaformi og er það nú aðgengilegt í kortasjá stofnunarinnar og á niðurhalssíðu

Þetta er í annað skipti sem vistgerðakortið er uppfært en frá fyrri útgáfu hafa verið gerðar breytingar á allri strönd landsins þar sem bil milli lands og fjöru var lagfært. Allt kortið var meðhöndlað með sérstakri aðferð til að mýkja áferð þess og minnka svokallaða „salt og pipar“ áferð kortsins. Nýjar hraunbreiður á Reykjanesskaga, sem mynduðust í eldgosum árin 2021, 2022, 2023 og í ársbyrjun 2024, eru komnar inn í kortið sem eyðihraunavist. Heildarendurskoðun var unnin á útbreiðslu rimamýravistar en grunur var um að hún hefði verið nokkuð vanmetin. Nýir flokkar landgerða, „skógarkerfill og fleiri áþekkar tegundir“ og „uppgræðslur“, koma nú fyrir í vistgerðakortinu. Jarðhitavistgerðir voru endurskoðaðar á völdum svæðum út frá nýjum vettvangsathugunum og myndkortum. Ýmsar svæðisbundnar leiðréttingar voru unnar út frá nýlegum vettvangsathugunum í verkefnum stofnunarinnar og ábendingum sem borist höfðu um kortið. 

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur á móti ábendingum um leiðréttingar á vistgerðakorti í gegnum netfangið ni@ni.is.

Vistgerðir og mikilvæg fuglasvæði á Íslandi (kortasjá)