Styrkur til rannsókna á útbreiðslu hæruburstar á jarðhitasvæðum á Íslandi

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hlotið 2,5 milljóna króna styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsókna á útbreiðslu mosategundarinnar hæruburstar, Campylopus introflexus. Verkefninu er stýrt af dr. Pawel Wasowicz grasafræðingi.

Markmið verkefnisins er að kortleggja útbreiðslu hæruburstar á jarðhitasvæðum, einkum háhitasvæðum, á Íslandi. Nákvæm gögn um útbreiðslu hæruburstar á jarðhitasvæðum munu liggja fyrir að rannsókn lokinni. Kortlagning útbreiðslu hæruburstar mun leggja grunn að frekari rannsóknum á vistfræði tegundarinnar á næstu árum. Jafnframt er fyrirhugað að leggja til aðgerðir sem miða að því að lágmarka áhrif hæruburstar á líffræðilegan fjölbreytileika jarðhitasvæða. 

Hæruburst er framandi mosategund sem verðskuldar athygli hér á landi vegna þess hve ágeng hún er í öðrum löndum Evrópu. Rannsóknir sem gerðar hafa verið í Evrópu sýna að tegundin getur haft áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika því hún getur myndað þéttar breiður og náð þannig yfirhöndinni yfir staðbundnum gróðri. Ástæða er til að ætla að hæruburst geti verið skaðleg líffræðilegum fjölbreytileika á íslenskum jarðhitasvæðum og ógnað fágætum jarðhitavistgerðum.

Hingað til hafa upplýsingar um hæruburst á Íslandi verið takmarkaðar en fyrir ári síðan hlaut Náttúrufræðistofnun Íslands 1,8 milljóna króna styrk úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar til rannsókna á útbreiðslu tegundarinnar. Níu háhitasvæði á Suðvestur- og Norðausturlandi voru heimsótt í því skyni að kortleggja útbreiðslu hæruburstar og fannst tegundin á sjö af svæðunum. Í desember síðastliðnum gaf stofnunin út skýrslu um niðurstöður rannsóknanna en þær eru fyrsti áfanginn í átt að ítarlegri þekkingu á útbreiðslu hæruburstar.

Styrkurinn sem stofnunin hefur nú fengið úthlutað verður notaður til áframhaldandi rannsókna á útbreiðslu hæruburstar á jarðhitasvæðum á Íslandi. Sumarið 2024 verður áhersla lögð á að rannsaka útbreiðslu tegundarinnar á þeim háhitasvæðum sem eru staðfestir fundarstaðir tegundarinnar auk svæða þar sem útbreiðsla hennar er talin líkleg; þetta tekur til jarðhitasvæða á Hengilssvæðinu, við Geysi, á Hveravöllum, í Kerlingarfjöllum, á Torfajökulsvæðinu, í Vonarskarði og í Þingeyjasveit. Á hverjum stað verður vistgerð greind og skráð, útbreiðsla hæruburstar skráð og flatarmál vaxtarsvæðis tegundarinnar mælt með GPS-tækjum (eða áætlað þar sem aðgangur er varhugaverður eða ekki mögulegur). Hitastig jarðvegs á 10 cm dýpi verður mælt á 3–5 stöðum í hverri breiðu hæruburstar til að öðlast innsýn í hitakröfur tegundarinnar. Tekin verða mosasýni á hverjum stað til að staðfesta tegundagreiningu.