Vöktun fálka 2023

Rannsóknir hafa verið stundaðar á stofnvistfræði fálka á Norðausturlandi síðan 1981. Rjúpa hefur verið aðalfæða fálkanna á rannsóknasvæðin öll árin og tengsl tegundanna eru náin. Frá 1981 hefur fálkastofninn risið og hnigið og fylgt sveiflum í stofnstærð rjúpu en með hniki, mest hefur verið um fálka þremur til fjórum árum á eftir hámarki í fjölda rjúpna. Þessi töf helgast líklega af því að það tekur ungfálka tvö til fjögur ár að ná bæði kynþroska og þrótti og getu til að helga sér óðal.

Heildarfjöldi fálkaunga sem kemst á legg ár hvert hefur sýnt marktæk tengsl við stofnstærð rjúpu og þá þannig að þau ár þegar rjúpnastofninn er sterkur komast margir fálkaungar úr hreiðrum og svo öfugt. Það eru því nýliðar, sem klekjast þegar rjúpnastofninn er í hámarki, sem standa þremur til fjórum árum síðar undir toppárum hjá fálkastofninum.

Talningar sýna að fálkum hefur fækkað samfellt frá 2019 og varpstofninn vorið 2023 var sá minnsti sem mælst hefur frá upphafi rannsókna. Samfelld fækkun fálka frá 2019 kemur á óvart. Viðkoma fálka var mjög góð bæði 2018 og 2019. Reyndar var árið 2018 það besta frá upphafi rannsóknanna, en þá komust á legg 104 fálkaungar á rannsóknasvæðinu. Fyrirfram hefði maður búist við að áhrifa þessara góðu ára 2018 og 2019 væri farið að gæta í nýliðun í varpstofni, en sú var ekki raunin. Hvað veldur? Líklega endurspeglar þessi fækkun í varpstofni fálka há afföll geldfugla og þar af leiðandi lélega nýliðun og mögulega skipta einnig máli aukin afföll óðalsfálka. Líklegur áhrifavaldur hér er fuglaflensa, en eitt staðfest tilvik er um fálka sem dó úr flensu haustið 2022 og á Náttúrufræðistofnun eru í frysti um tugur fálkahræja frá sama tíma og mjög líklega eru flensudauðir fuglar þar á meðal.

Fréttatilkynning um vöktun fálka 2023 (pdf)