Vetrarfuglatalning 2023

Árleg vetrarfuglatalning Náttúrufræðistofnunar Íslands fer fram helgina 6.–7. janúar næstkomandi. Markmið talninganna að kanna fjölda og dreifingu einstakra tegunda í mismunandi landshlutum. Einnig nýtast gögnin til að meta stofnbreytingar hjá sumum tegundum. Fuglaáhugamenn hafa frá upphafi borið hitann og þungann af þessu starfi.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur um langt skeið skipulagt fuglatalningar áhugafólks sem sinnir þeim í sjálfboðavinnu um áramótin. Sú fyrsta var 21. desember 1952, á stysta degi ársins og var þá talið á 10 svæðum og er enn talið á sumum þeirra. Þeim  hefur fjölgað jafnt og þétt og nú er talið að jafnaði á yfir 200 svæðum árlega.  Alls hefur verið talið á um 370 svæðum (sjá kort) og eru einstakar talningar orðnar um sjö þúsund. Svæðin eru dreifð um láglendi um allt land en flest eru við sjávarsíðuna þar sem flestra fugla er von á þessum árstíma. Samanlögð lengd strandlengjunnar innan talningarsvæðanna er um 1.800 km eða um þriðjungur af strönd Íslands ef hún er 5.000–6.000 km löng. 

Undanfarin ár hafa að jafnaði sést um um eða yfir 80 tegundir í talningunni og er um helmingur þeirra eiginlegir vetrargestir, en hinar eru flestar flækingsfuglar og eftirlegukindur. Alls hafa sést í þessum talningum hátt á annað hundrað tegundir. Æðarfugl hefur nær alltaf verið algengasta tegundin og sést með ströndum fram um land allt. 

Miklar breytingar hafa orðið í fuglafánu Íslands á því 71 ári sem liðið er frá upphafi vetrarfuglatalninga. Á þessum tíma hafa t.d. náð hér fótfestu starar og svartþrestir sem þreyja hér þorrann og góuna en virðast ekki vera farfuglar í neinum mæli.

Niðurstöður úr talningunum 2002–2022 

Þeir sem hafa áhuga að taka þátt í fuglatalningunum 6.–7. janúar næstkomandi geta sett sig í samband við Svenju N.V. Auhage, einnig veitir hún nánari upplýsingar um talningarnar, einstök talningarsvæði og fleira.