Náttúrufræðistofnun Íslands og Háskóli Íslands endurnýja samning um samstarf á Breiðdalsvík

Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands og Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands hafa endurnýjað samning um samstarf stofnananna á Breiðdalsvík til næstu þriggja ára. Samningurinn, sem fyrst var gerður 2020, hefur það að markmiði að áfram verði unnið að eflingu jarðfræðirannsókna, einkum á Austurlandi, auka hlut verkefna Náttúrufræðistofnunar Íslands sem unnin eru í landshlutanum og auka samstarf stofnananna.

Borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands hefur verið starfrækt á Breiðsalsvík síðan 2015 og síðustu ár hefur verið unnið þar mikið uppbyggingarstarf. Meðal annars hefur verið farið í gegnum safnkostinn og hann skipulagður, innviðir lagfærðir og starfsemin kynnt fyrir vísindasamfélaginu hérlendis og á erlendri grundu. Margir vísindamenn hafa nýtt sér safnkostinn til rannsókna, auk þess sem borkjarnar hafa verið lánaðir úr safninu til fræðslu- og listsýninga. Til viðbótar hefur verið unnið að ýmsum verkefnum stofnunarinnar, meðal annars jarðfræðikortlagningu ýmissa svæða í landshlutanum, allt frá Lóni til Vopnafjarðar, og rannsóknum á bergi og steindum náttúruvættisins Teigarhorns í Berufirði.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík var sett á fót árið 2021 og er því einkum ætlað að sinna rannsóknum á sviði jarðfræði og málvísinda. Sérstök áhersla er lögð á miðlun og fræðslu í nærsamfélaginu og samstarf við borkjarnasafn Náttúrufræðistofnunar Íslands. Nemendur í öllum árgöngum Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla hafa fengið að kynnast jarðfræði heimabyggðar sinnar í gegnum ýmis verkefni, tilraunir og vettvangsferðir og þá hafa verið haldin málþing og sýningar á sviði jarðfræði og málvísinda og var ný sýning opnuð síðastliðið sumar um notkun borkjarna í rannsóknum.

Með samningnum samþykkja samstarfsaðilar að tryggja áfram fjármögnun starfs verkefnisstjóra við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Starf verkefnisstjóra snýr að borkjarnasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands og fleiri verkefnum stofnunarinnar á Austurlandi, auk þess sem verkefnisstjórinn sinnir verkefnum fyrir rannsóknasetrið á sviði miðlunar, fræðslu og rannsókna.