Jóns Gunnars Ottóssonar minnst á fundi aðildarríkja Bernarsamningsins

Á 43. fundi aðildarríkja Bernarsamningsins sem nú stendur yfir í Strasbourg í Frakklandi var Jóns Gunnars Ottóssonar fyrrverandi forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, sem féll frá 15. september síðastliðinn, minnst með hlýjum orðum.

Jón Gunnar starfaði um árabil á vettvangi Bernarsamningsins, sem fastafulltrúi Íslands frá 1993, sem varaformaður 2004–2007 og hann tók svo við formennsku samningsins og leiddi framkvæmdastjórn og aðildarríkjafundi frá 2007–2010. Jón Gunnar lét til sín taka á þessum mikilvæga vettvangi fyrir verndun lífríkis Evrópu og var einnig ötull talsmaður samningsins og verkefna hans á Íslandi og hafði meðal annars þungavigtaráhrif á innleiðingu lykilmarkmiða og lykilviðfangsefna samningsins inn í íslensk lög, regluverk og áætlanagerð.

Við setningu 43. fundar aðildarríkja Bernarsamningsins í gær, 27. Nóvember, flutti Merike Linnamägi, núverandi formaður Bernarsamningsins frá Eistlandi, minningarorð þar sem Jóns Gunnars var minnst sem öflugs formanns sem kom mörgum tímamótamálum á dagskrá og í tryggan farveg, sem hæfileikaríks samningamanns og málamiðlara, sem ötuls baráttumanns fyrir náttúruvernd og ekki síst sem góðs vinar og félaga. Fleiri tóku til máls á fundinum og minntust Jóns Gunnars og greindu frá kynnum sínum við hann, deildu skemmtilegum minningum og þökkuðu fyrir gjöfult samstarf gengum árin. Fulltrúi Íslands á fundinum, Snorri Sigurðsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands, þakkaði formanni og stjórn Bernarsamningsins kærlega fyrir minningarstundina og sagði að hún myndi skipta marga á Íslandi máli.