Samantekt frjómælinga 2023

Tekið hefur verið saman yfirlit yfir frjómælingar í Garðabæ og á Akureyri sumarið 2023. Á Akureyri var fjöldi frjókorna nálægt meðaltali en í Garðabæ mældust mun færri frjókorn en í meðalári.

Á Akureyri var heildarfjöldi frjókorna 3.487 frjó/m3. Af þeim var hlutfall grasfrjóa 83,4%, birkifrjóa 2,2%, súrufrjóa 1,7% og asparfrjóa 0,3%. Hlutfall frjókorna af ýmsum tegundum sem jafnan ber lítið á, auk óþekktra tegunda, var 12,4%, þar af voru víðifrjó 3,2%. Frjóríkasti mánuðurinn var ágúst en þá mældust 2.237 frjó/m3 eða tæplega um 64% af heildarfjölda. Þá mældist í ágúst næstmesti fjöldi grasfrjókorna (2.193 frjó/m3), sem mælst hefur í einum mánuði á Akureyri frá upphafi mælinga.

Í Garðabæ var fjöldi frjókorna 1.431 frjó/m3. Af þeim voru grasfrjó 54,5%, súrufrjó 6,8%, birkifrjó 2,9% og asparfrjó 0,5%. Hlutfall frjókorna af ýmsum tegundum sem jafnan ber lítið, auk óþekktra, var 35%, þar af voru furu- og grenifrjó 9,6%. Flest frjókorn mældust í júlí (582 frjó/m3) eða tæplega 41% af frjókornum sumarsins.

Frjómælingar á Akureyri sumarið 2023 

Frjómælingar í Garðabæ sumarið 2023