Leitað að fágætum skeljasandsengjum á Íslandi

Síðastliðið sumar unnu sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands að rannsókn á því hvort fágæt vistgerð finnist ofan skeljasandstranda hér á landi. Í þeim tilgangi var farið á vettvang á ákveðin svæði á Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem skeljasandur er ríkjandi í jarðvegi. Fyrstu niðurstöður benda til að grashólavist sé samsvarandi hinum eiginlegu skeljasandsengjum. 

Á norðvestanverðum Bretlandseyjum er að finna fágæta vistgerð, svokallaða „machair“-vistgerð, sem hingað til hefur verið talið að finnist einvörðungu á því svæði. Sökum fágætis og sérstaks lífríkis nýtur vistgerðin verndar á Bretlandseyjum og er hún á lista Bernarsamningsins yfir vistgerðir sem teljast verndar þurfi. 
Tilvist vistgerðarinnar, sem ef til vill mætti útleggja sem skeljasandsengi á íslensku, er háð ákveðum umhverfisþáttum en ein meginforsendan er sú að skeljasandur sé uppistaðan í jarðveginum. Ýmislegt bendir til að réttu skilyrðin sé að finna upp af skeljasandströndum á ákveðnum svæðum á Vesturlandi og Vestfjörðum hér á landi. 

Náttúrufræðistofnun Íslands hlaut á vormánuðum 1,5 milljóna króna styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar til að rannsaka hvort vistgerðin skeljasandsengi finnist á Íslandi. Verkefninu er stýrt af Olgu Kolbrúnu Vilmundardóttur, landfræðingi. Í rannsókninni er kannað hvernig plöntusamsetningu og jarðvegseiginleikum er háttað ofan skeljasandsstranda og leitast við að skera úr um hvort hin fágæta vistgerð skeljasandsengi finnist í raun hér á landi. 

Gagnasöfnun á vettvangi fór fram í júlí og ágúst en farið var um valin svæði á sunnanverðu Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum þar sem skeljasandur er móðurefni jarðvegs. Gerðar voru lýsingar á gróðurfari, gróður mældur á vistgerðasniðum og jarðvegssýnum safnað til greiningar. Jafnframt voru unnar mælingar á völdum svæðum ofan „svartra“ sandstranda þar sem sandur úr bergmylsnu er ríkjandi móðurefni til samanburðar. Teknar voru loftmyndir með dróna við Vatnsflóa á Snæfellsnesi og verða gögnin nýtt til að vinna ítarlegt gróður- og vistgerðakort. 

Ljóst er að umhverfi skeljasandsengja er afar fjölbreytt og í því finnast ýmsar vistgerðir þar sem skeljasandur er ríkulegur í jarðvegi, þar á meðal grashólavist sem ef til vill mætti líta á sem hin eiginlegu skeljasandsengi eða machair-vistgerð. Almennt séð mætti lýsa gróðri á skeljasandsengjum sem snöggu, gisnu graslendi allríku af blómjurtum þar sem túnvingull er ríkjandi grastegund, blóðberg er víða með mikla þekju og hrossanál gefur þessum svæðum einkennandi yfirbragð þótt þekja þess sé yfirleitt lítil. Moldarjarðvegur er yfirleitt þunnur ofan á skeljasandinum. Þótt flest svæðin sem skoðuð voru hefðu sín séreinkenni í plöntusamsetningu var, auk áðurnefndra tegunda, vandartegundir að finna á öllum svæðum og var gullvöndur þeirra algengastur. Raunar fundust allar sjö tegundir vanda sem vaxa á Íslandi á rannsóknasvæðunum. Vandartegundir eiga það sameiginlegt að vera ein- eða tvíærar, flestar þrífast þær í tiltölulega rýru landi, á harðbalagrundum og sendnum, grónum árbökkum eða áreyrum og eru sumar þeirra fremur fágætar hérlendis og í Evrópu.

Fyrir liggur frekari úrvinnsla gagna en jarðvegssýni verða send í efnagreiningu á næstu vikum og unnið verður úr gögnum yfir vetrarmánuðina. Við úrvinnslu verður jafnframt notast við gögn sem náttúrustofurnar á Vesturlandi og Vestfjörðum öfluðu við vistgerðavöktun undir verkefninu Vöktun náttúruverndarsvæða á svæðum þar sem líklegt er að skeljasandsengi séu fyrir hendi. Áhugavert verður að sjá hvort gögnin gefi til kynna mun á plöntusamsetningu og jarðvegseiginleikum grashólavistar í skeljasandsumhverfi samanborið við hefðbundið strandumhverfi þar sem sandur er að meginhluta bergmylsna og geti gefið svör um hvort að hér finnist hin fágæta machair-vistgerð Bretlandseyja.