Langtímasvörun íslenskra refa við breytingum á vistkerfum lands og sjávar

Í vísindatímaritinu PLOS ONE kom nýlega út grein þar sem fjallað er um langtímasvörun íslenskra refa við breytingum á vistkerfum á landi og í sjó. 

Gera má ráð fyrir að þau öfl sem stjórna stofnum rándýra séu knúin áfram af sveiflum í framboði fæðuauðlinda og að þau endurspegli breytingar á vistkerfum eins og þær sem loftslagsbreytingar valda. 

Íslenski refurinn hefur gengið í gegnum miklar stofnstærðarsveiflur síðan á sjötta áratug síðustu aldar. Með því að nota stöðuga samsætugreiningu á kollageni úr beinum úr dýrum frá tímabilinu 1979–2018 var stefnt að því að bera kennsl á helstu fæðuauðlindir sem íslenskir melrakkar nota á vaxtar- og hnignunartímabilum til að meta hvort breytileiki á stofnstærð tengist sveiflum í fæðuframboði. Settar voru fram þær tilgátur að (1) hnignun sjófuglastofna valdi fækkun í refastofninum og (2) að vöxtur refastofnsins, ásamt sveiflum í helstu auðlindum, leiði til aukinnar sértækrar innri samkeppni sem á endanum leiðir til breytinga á stöðu samsætuhlutfalla þeirra í vistkerfinu.

Samsætusamsetning beina úr íslenskum refum var greinilega mismunandi eftir því hvort dýrin lifðu nálægt sjó eða innar í landinu. Við sjóinn virðast sjávarauðlindir og rjúpa vera mikilvægasta fæðan auk þess sem matarræði sýnist stöðugt. Á búsvæðum innar í landinu kom fram meiri breytileiki í fæðusamsetningu. Búsvæði refa við ströndina náðu almennt yfir stærra svæði en búsvæðin inni í landi en þar voru þau mjög breytileg að stærð.  

Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að hnignun sjófuglastofna ýti undir fækkun í refastofninum, sérstaklega við ströndina. Skortur á sjávarauðlindum virðist leiða til aukins mikilvægis rjúpunnar sem fæðuauðlind, sérstaklega síðustu misserin.

Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands tók þátt í rannsókninni með því að útvega gögn og sýni og veita tveimur meistaranemum leiðsögn, þeim Fanny Berthelot og Jennifer Carbonell Ellgutter, ásamt Dr. Dorothee Ehrich. Allar eru þær höfundar að greininni, sem er öllum opin á netinu: 

Berthelot, F., E.R. Unnsteinsdóttir, J.A. Carbonell Ellgutter og D. Ehrich 2023. Long-term responses of Icelandic Arctic foxes to changes in marine and terrestrial ecosystems. PLOS ONE 18(10): e0282128. https://doi.org/10.1371/journal.pone.0282128