Dagur jarðbreytileikans

Í dag, 6. október 2023, er degi jarðbreytileikans fagnað, en Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) samþykkti árið 2021 að þessi dagur yrði tileinkaður jarðfræðilegum fjölbreytileika, jarðbreytileika (e. geodiversity). 

Jarðbreytileiki nær yfir allar jarðminjar eins og berg, steindir, steingervinga, jarðveg, vatn, landform og auk þess virk ferli eins og strandrof, skriðuföll og jarðskjálfta. Náttúrulegt landslag endurspeglar jarðbreytileika. 

Mikill jarðbreytileiki er á Íslandi sem tengist aðallega eldvirkni og jöklum, en er einnig við strendur landsins og á hafsbotni. Á Íslandi gengur úthafshryggur (rekbelti) á land og ummerki þess eru gossprungur (gígaraðir og móbergshryggir), gliðnunarsprungur, misgengi og sigdalir (eins og t.d. á Þingvöllum). 
Jarðbreytileiki er undirstaða tilveru okkar og vistkerfi byggja á honum. Þá er jarðbreytileiki undirstaða jarðminjaverndar.

Í dag verður jarðbreytileikanum fagnað víða um heim eins og sjá má á vefnum Geodiversity Day.

Gleðilegan dag jarðbreytileikans!