Jón Gunnar Ottósson, minning

Jón Gunnar Ottósson fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands lést þann 15. september síðastliðinn og verður jarðsunginn í dag þann 27. september. Hann tók við stjórn Náttúrufræðistofnunar í ársbyrjun 1994 og stýrði stofnunni uns hann fór á eftirlaun haustið 2020. Jón Gunnar tók við stofnuninni á umbreytingartímum og gjörbylti starfseminni á fáeinum árum. Náttúrufræðistofnun (áður Náttúrugripasafnið) á rætur að rekja til ársins 1889 er Hið íslenska náttúrufræðifélag var stofnað en ríkið tók yfir starfsemina árið 1947 og heyrði Náttúrufræðistofnun undir menntamálaráðuneytið þar til umhverfisráðuneytið var sett á laggirnar árið 1990. Fram að því var áherslan var á safnahlutverk stofnunarinnar og enn er þar stærsta vísindasafn náttúrugripa í landinu. Stofnunin var fámenn á þessum árum eða rétt um 10 starfsmenn. Sett voru sérstök lög um Náttúrufræðistofnun Íslands árið 1992 sem Jón Gunnar átti mikinn þátt í að semja; hlutverki hennar var þá breytt og gert mun víðtækara en áður og varð hún ein meginstofnun þess ráðuneytis á sviði rannsókna á íslenskri náttúru.

Jón Gunnar var réttur maður á réttum stað er hann tók við stjórn Náttúrufræðistofnunar. Vegferð Jóns Gunnar áður sýndi að metnaður hans stóð til að vera stjórnandi og leiðtogi frekar en fræðimaður, með áherslu á náttúruvernd byggða á traustum rannsóknum. Hann var líffræðingur frá Háskóla Íslands 1974 og lauk doktorsprófi í vistfræði við Háskólann í Exeter á Englandi 1981. Fræðilegur grunnur hans var því traustur. Fyrstu árin eftir nám starfaði Jón Gunnar að rannsóknum en 1988 urðu skil og eftir það helgaði hann krafta sýna stjórnun og stjórnsýslu. 

Jón Gunnar var fæddur foringi og hafði þann eiginleika að hrífa fólk með sér. Framtíðarsýn hans fyrir hönd Náttúrufræðistofnunar var skýr og metnaðurinn mikill. Hann ætlaði sér að byggja upp öfluga stofnun á sviði náttúrurannsókna og náttúruverndar og koma starfsseminni í húsnæði við hæfi. Honum tókst hvortveggja svo sannarlega! Það verður seint sagt um Jón Gunnar að hann hafi verið átakafælinn. Hann var klókur skákmaður og hugsaði alltaf nokkra leiki fram í tímann. Sæi hann sóknarfæri til að byggja upp og styrkja Náttúrufræðistofnun þá greip hann það. Náttúrufræðistofnun í dag er allt önnur stofnun en Jón Gunnar tók við á sínum tíma, hér skilur að himinn og haf. Hann skilaði góðu verki!

Jón Gunnar var hvergi nærri hættur þó hann færi á eftirlaun haustið 2020. Enn og aftur var það verndun íslenskrar náttúru sem honum var efst í huga. Jón Gunnar og nokkrir aðrir náttúruverndarsinnar stofnuðu félagið Vinir íslenskrar náttúru. Markmið þessa félags er að vernda líffræðilega fjölbreytni landsins sem nú er ógnað sem aldrei fyrr. Hér var baráttumaðurinn í essinu sínu.

Að leiðarlokum kveður starfsfólk Náttúrufræðistofnunar sinn gamla leiðtoga með söknuði og virðingu. Blessuð sé minning Jóns Gunnars Ottóssonar.