Jón Gunnar Ottósson látinn

Jón Gunnar Ottósson fyrrverandi forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands lést 15. september, 72 ára að aldri.

Jón Gunnar fæddist á Akureyri árið 1950. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1970, B.S.gráðu í líffræði frá Háskóla Íslands árið 1974 og doktorsprófi frá Háskólanum í Exeter á Englandi árið 1981 og fjallaði ritgerð hans um vistfræði skordýra og plantna.

Jón Gunnar tók við stöðu forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands árið 1994 og starfaði þar þangað til hann fór á eftirlaun árið 2020. Áður en hann hóf störf hjá stofnuninni hafði hann starfað við fag sitt hjá ríkinu á ýmsum vettvangi. Áður en Jón Gunnar hélt utan til doktorsnáms vann hann við rannsóknir á vistkerfi Þjórsárvera hjá Náttúrufræðistofnun Íslands árið 1973 og árin 1974–1975 við rannsóknir á fjörum og sjávarbotni í Hvalfirði við Líffræðistofnun Háskóla Íslands. Hann kenndi líffræði við Menntaskólann við Hamrahlíð árin 1974–1976 og 1978–1979 og í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1980–1981 og hann tók að sér stundakennslu við líffræðiskor Háskóla Íslands 1980–1981 og 1983–1984. Á árunum 1982–1987 starfaði Jón Gunnar sem sérfræðingur við Rannsóknastöð Skógræktar ríkisins og var forstöðumaður við sömu stofnun 1988–1990. Árin 1990–1991 var hann deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu og skrifstofustjóri umhverfisskrifstofu ráðuneytisins 1992–1994. Auk þessa átti Jón Gunnar sæti í í náttúruverndarráði 1983–1987 og hann sat í ýmsum ráðum og nefndum tengdum náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu. Eftir að Jón Gunnar lét af störfum árið 2020 sat hann í stjórn Vina íslenskrar náttúru. 

Jón Gunnar kvæntist Sigríði Halldórsdóttur Laxness árið 1973. Börn þeirra eru Auður, Rannveig og Ari Klængur. Þau Sigríður skildu. Í ágúst 1990 kvæntist hann síðari konu sinni, Margréti Frímannsdóttur, alþingismanni og síðar forstöðumanni fangelsisins á Litla-Hrauni. Stjúpbörn Jóns Gunnars og börn Margrétar af fyrra hjónabandi eru Áslaug Hanna og Frímann Birgir Baldursbörn. 

Foreldrar Jóns Gunnars voru Ottó Jónsson menntaskólakennari í Reykjavík og Rannveig Jónsdóttir fyrri kona hans.

Starfsfólk Náttúrufræðistofnunar Íslands minnist Jóns Gunnars með hlýju og virðingu.