Vöktun þungmálma og brennisteins í mosa á Íslandi

Hér á landi hefur loftborin mengun verið vöktuð frá árinu 1990 með því að mæla styrk nokkurra þungmálma og fleiri efna í mosa á fimm ára fresti. Vöktunin er hluti af evrópsku verkefni unnið í þeim tilgangi að kortleggja uppsprettur mengandi efna í andrúmslofti og fylgjast með breytingum sem verða. Mosar, einkum þeir sem mynda breiður, fá mestan hluta næringar sinnar með úrkomu og ryki sem á þá fellur. Efnin safnast fyrir í mosanum og því endurspeglar magn þeirra hreinleika andrúmsloftsins sem umleikur mosann. Á Íslandi er tildurmosi (Hylocomium splendens) heppilegur til þessara mælinga því að hann er algengur, vex víða í breiðum og myndar afmarkaða árssprota. Mosanum hefur verið safnað víðs vegar um land, sérstaklega í nágrenni stóriðju, og frumefni verið greind.

Vöktunin hefur sýnt að mikilvirkustu uppsprettur loftmengunar eru eldgos, sem geta haft tímabundin áhrif víða um land. Aðrar uppsprettur mengunar eru álver, annar iðnaður og jarðvarmavirkjanir sem hafa fremur staðbundin en viðvarandi áhrif. Einnig áfok af lítt grónum svæðum. Þungmálmar berast jafnframt með loftstraumum erlendis frá en í frekar litlum mæli.

Styrkur efna er misjafn eftir árum og svæðum. Í kjölfar gossins í Holuhrauni 2014–2015 hækkaði til dæmis styrkur brennisteins í tildurmosa og skemmdir á mosanum komu fram á stórum hluta landsins. Þá var mosi einnig skemmdur við öll álverin og sums staðar hafði hann horfið með öllu, að líkindum vegna efnaálags.

Vöktun þungmálma og brennisteins í mosa á Íslandi 1990–2015 (pdf)