Útbreiðsla og flatarmál lúpínubreiða á Íslandi

Alaskalúpína, sem skilgreind er sem ágeng, framandi plöntutegund, er orðin mjög útbreidd og þekur víða stór svæði. Hún veldur miklum breytingum á náttúrufari þar sem hún breiðist um. Því er nauðsynlegt að hafa góðar upplýsingar um útbreiðslu hennar og hvers konar land hún leggur undir sig. Samkvæmt hinu nýja korti, sem byggir á loftmyndum sem flestar eru frá 2007–2017, er heildarútbreiðsla lúpínubreiða á landinu 299 km2. Mest er lúpína á Suðurlandi, Suðvesturlandi og Norðausturlandi en minnst á Vestfjörðum. Í öllum landshlutum hafði lúpína aukist frá fyrri kortlagningu sem byggði á loftmyndum frá 2015 eða fyrr. Nam aukningin að meðaltali um 10%. Er þá uppgræðslusvæði á Hólasandi í Suður-Þingeyjarsýslu undanskilið en þar var útbreiðsla lúpínu ofmetin á fyrra korti.

Líklegt er að útbreiðsla og flatarmál svæða sem lúpína leggur undir sig til lengri eða skemmri tíma muni margfaldast á næstu áratugum. Því veldur hin mikla útbreiðsla sem þegar er orðin í öllum landshlutum, líklegur samdráttur í sauðfjárbúskap, hlýnandi loftslag, andvaraleysi og máttvana aðgerðir til að hindra útbreiðslu lúpínu fram að þessu.

Útbreiðsla og flatarmál lúpínubreiða á Íslandi 2017 (pdf)