Gróður á norðurslóðum tekur örum breytingum með hlýnandi loftslagi

Helstu niðurstöður rannsóknarinnar sýna að loftslag heimskautasvæða hlýnar nú mun hraðar en í öðrum lífbeltum jarðar og það gerir hávaxnari tegundum kleift að nema þar land, auk þess sem tegundir sem fyrir voru ná meiri hæð. Þannig hefur gróður almennt hækkað á þessum svæðum á síðustu áratugum. Jafnframt sýna niðurstöðurnar að aukin hæð er ekki bundin við örfá svæði heldur eru þetta almenn viðbrögð plantna á túndrusvæðum. Ef hlutdeild hávaxinna plantna heldur áfram að aukast í sama mæli og verið hefur kann hæð gróðurs að aukast um 20–60 prósent fyrir lok aldarinnar.

Rannsóknin byggist á umfangsmesta gagnasafni sem til er um plöntur á heimskautasvæðum, eða yfir 60.000 athugunum á 117 rannsóknasvæðum víðsvegar á heimskautasvæðum og háfjallatúndrum. Tveir íslenskir vísindamenn tóku þátt í rannsókninni og lögðu til gögn úr rannsóknarverkefnum sínum, þau Ingibjörg Svala Jónsdóttir prófessor við Háskóla Íslands og Borgþór Magnússon vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. Annars vegar er um að ræða gögn sem koma frá tilraunasvæðum sem voru sett upp undir forystu Ingibjargar Svölu, á Íslandi og Svalbarða, sem hluti af alþjóðlega túndruverkefninu (International Tundra Experiment, ITEX). Frá Náttúrufræðistofnun Íslands voru hins vegar nýtt gögn úr svonefndu Hagaverkefni þar sem fylgst hefur verið með breytingum á gróðri og ástandi beitilands á láglendi og til heiða frá árinu 1997. Um er að ræða samstarfsverkefni Landgræðslu ríkisins, Landbúnaðarháskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Greinin í Nature

Frétt á vef Háskóla Íslands