Miklar breytingar á líffræðilegri fjölbreytni sjávar á norðurslóðum

Þetta eru helstu niðurstöður sem koma fram í skýrslunni State of the Arctic Marine Biodiverstiy Report sem gefin var út í 11. maí af Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF), sem er vinnuhópur um líffræðilega fjölbreytni innan Norðurskautsráðsins. Að skýrslunni unnu yfir 60 vísindamenn, m.a. frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Vegna fæðuskorts í hlýnandi sjó hafa margar norðlægar tegundir þurft að leita enn norðar í kaldari sjó. Hvítabirnir og sumar tegundir sela þurfa að ferðast lengri vegalengdir til að afla sér fæðu og hafa stofnar þessara tegunda látið á sjá og sömuleiðis margir sjófuglastofnar.

Aukinn fjöldi suðrænna tegunda hefur leitað norður á bóginn en mjög erfitt getur verið að spá fyrir um afleiðingar þess fyrir vistkerfis norðurslóða. Oft er um að ræða tegundir sem geta ógnað lífríkinu og hætta á að þær útrými þeim tegundum sem fyrir eru eða séu óhentug fæða fyrir hánorrænar tegundir. Þær auka einnig líkurnar á áður óþekktum smitsjúkdómum en þegar hefur orðið vart við slík tilvik.

Breytingar eiga sér nú stað á eðlis-, efna- og líffræði vistkerfanna. Margar þeirra eru hægfara en einnig má búast við miklum og skyndilegum breytingum sem hafa áhrif á vistkerfin. Mikilvægt er að sporna sem fyrst gegn þeim. Það þarf að vernda líffræðilega fjölbreytni og m.a. koma í veg fyrir að ágengar framandi tegundir nái fótfestu.

Í skýrslunni eru ráðleggingar um hvernig er hægt að efla vöktun á líffræðilegri fjölbreytni á norðurslóðum og bæta miðlun rannsóknaniðurstaðna til stjórnvalda.