Hlýnun jarðar og umsvif mannsins auka hættu á aðflutningi ágengra framandi tegunda á norðurslóðum

Í dag eru fáar framandi tegundir á norðurslóðum en búast má við auknum aðflutningi þeirra með hlýnandi loftslagi og auknum umsvifum eins og vaxandi áhuga á vinnslu auðlinda, búsetu og ferðamennsku. Því er mikilvægt að grípa strax til aðgerða. Aðkallandi er að miðla þekkingu til stjórnvalda og koma af stað vöktunar- og aðgerðaráætlunum.

Stefnan og aðgerðaráætlunin The Arctic Invasive Alien Species (ARIAS) Strategy and Action Plan, er unnin af The Conservation of Arctic Flora and Fauna (CAFF) og The Protection of the Arctic Marine Environment (PAME) sem eru vinnuhópar innan Norðurskautsráðsins. Náttúrufræðistofnun Íslands tekur þátt í verkefninu fyrir hönd Íslands.