Skógarmítlar láta á sér kræla

Skógarmítill er sá nýliðinn í ríki smádýranna sem jafnan fær mesta umfjöllun og ratar reglulega í fjölmiðla. Umræðan mótast gjarnan af ótta við blóðsuguna þessa og sýkinguna sem af bitum getur leitt. Jafnvel heyrist af fólki sem hikar við að njóta náttúrunnar og forðast skógargöngur. Oft er spurt hvað sé af kvikindunum að frétta og hvort ástæða sé til að óttast.

Nýr landnemi

Flest bendir til þess að skógarmítill hafi náð að setjast að hjá okkur þó ekki hafi það enn verið staðfest með því að finna yngsta ungviðið. Slíkt er reyndar ekki auðfundið vegna smæðar sinnar og gæti þurft að kemba mikinn fjölda hagamúsa til að leita það uppi. Hins vegar hafa  fullþroska dýr og eldra ungviði fundist í öllum landshlutum nema á miðhálendinu, langflest á Suðvesturlandi.

Flestir mítlanna hafa fundist á ferfætlingum, einkum hundum og köttum en færri á mönnum. Af 106 mítlum sem skoðaðir hafa verið af þekktum hýslum frá upphafi til ársins 2011 fundust 85 á ferfætlingum og 21 á mönnum. Hlutfallið er þó varla í samræmi við þessar tölur því vitað er að dýralæknar losa margan ferfætlinginn við óværu af þessu tagi sem síðan er fargað og kemur ekki til skráningar, sem er miður.

Landnámssagan og kortlagning útbreiðslu

Á ári hverju berast fáein til allnokkur eintök frá finnendum í hendur fræðimanna til rannsókna og heyrist af enn fleirum sem finnendur hafa fargað. Á seinni árum hefur mítlunum  farið fjölgandi sem að einhverju leyti kann að tengjast aukinni umfjöllun. Erling Ólafsson skordýrafræðingur Náttúrufræðistofnunar leggur áherslu á að fá send til skoðunar þau eintök sem finnast til að kortleggja og skrá landnámssöguna. Fleiri tegundir af þessum stórmítlum svokölluðu hafa nefnilega fundist hér á landi og er æskilegt að greina til tegundar hvern þann mítil sem kemst undir manna hendur. Við greininguna þarf að skoða smásæ einkenni mítlanna í smásjá. Tilkynning án eintaks verður ekki skráð á nafni tegundar.

Undanfarna daga hafa fjórir skógarmítlar borist til Náttúrufræðistofnunar, tveir sem fundust á köttum,  í Ólafsvík og Búðardal, einn á hundi í Öræfum (allt fullþroska kvendýr) og einn (ungviði) á barni á Vopnafirði. Finnendur mítla eru eindregið hvattir til að hafa ofangreint í huga og leggja sitt af mörkum við rannsóknirnar með því að koma mítlunum til stofnunarinnar. Það á einnig við um dýralækna sem fá það hlutverk að losa ferfætlinga heimilanna við óværuna og heilsugæslulækna sem sinna tvífætlingunum á sama hátt.

Stórmítlar og sýklar

Af stórmítlum sem sjúga blóð eru margar tegundir í heiminum. Hér á landi eru þrjár taldar landlægar en sex að auki hafa borist erlendis frá. Stórmítlar hýsa fjölbreytt úrval sýkla af ýmsu tagi sem sumir hverjir geta orðið blóðgjöfum mítlanna til vandræða. Algengt er að vitna til sýkilsins Borrelia burgdorferi sem getur lagst á miðtaugakerfið og valdið illvígum sjúkdómi sem á ensku kallast „Lyme disease“. Skógarmítillinn getur borið þennan sýkil í blóðgjafa sína.

Það skal nefnt að líkurnar á slíkum hremmingum eru afar litlar hér á landi. Ekki er vitað til þess að maður hafi sýkst hér af Borrelia. Því fer fjarri að hvert bit skógarmítils leiði til sýkingar. Erlendis heyrir slíkt til undantekninga. Í fyrsta lagi þurfa mítlarnir að bera í sér sýkilinn sem er ekki sjálfgefið. Í öðru lagi þarf sýkillinn að berast með munnvatni mítilsins inn um stungusárið, en til þess að svo verði þarf mítillinn að fá tækifæri til að athafna sig á blóðgjafa sínum í töluverðan tíma. Í þriðja lagi, eins og gjarnan háttar til með sýkingar, er hættan háð magni sýkingar. Allir þessir þættir þurfa að haldast í hendur til að illa fari.

Gripið til varna

Skógarmítlar eru það stórir að þeir finnast að öllu jöfnu fljótlega á mannslíkamanum og er þá strax gripið til varna. Þeir fá því sjaldnast nægan tíma til að sýkja hinn óheppna blóðgjafa sinn. Mítla skal fjarlægja við fyrstu hentugleika og það haft í huga að máli skiptir hvernig þeir eru losaðir. Það má alls ekki taka utan um bol þeirra og toga í þá. Ef mítillinn er kreistur getur það orðið til þess að að sýklar sprautist úr mítlinum inn í stungusárið. Það þarf að ná taki á munnlimunum fremst á hausnum sem eru grafnir ofan í húðina með oddmjórri flísatöng eða þar til gerðum mítlatöngum, skrúfa  aðeins til hliðanna til að losa betur um fjölmörg hökin á munnlimunum sem tryggja festuna og draga síðan beint út. Þannig má forðast að slíta munnlimina af og skilja þá eftir í sárinu. Sjálfsagt er að sótthreinsa sár, hendur og áhöld á eftir. Síðan skal fylgst vel með stungusárinu og leita strax til læknis ef óeðlilegs roða fer að gæta í húðinni. Meðhöndlun sýkingar á frumstigi er einföld en ef ekkert er að gert getur orðið erfiðara við hana að eiga á seinni stigum.

Það skal ítrekað að hættan á hremmingum af biti skógarmítla hér á landi er hverfandi og líkurnar á því að fá mítilinn á sig úti í náttúrunni eru einnig litlar. Það er þó sjálfsagt að fólk sé á varðbergi og upplýst um þetta málefni  og kunni að bregðast rétt við ef til kemur. Hafa skal í huga að óvíða er náttúra jafn örugg til útivistar og hér á Íslandi svo fólk ætti ekki láta fágæta skógarmítla hefta för.

Nánar um skógarmítil