Frjómælingar hafnar á Akureyri og í Garðabæ

Frjómælingar hófust 9. apríl í Urriðaholti í Garðabæ og tæpri viku síðar á Akureyri eða 15. apríl. Sem fyrr birtast niðurstöður mælinga vikulega á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands, www.ni.is. Framsetningu upplýsinga um frjótölur hefur verið breytt, m.a. hafa verið sett inn áhættumörk í samræmi við dönsku astma- og ofnæmissamtökin. Mörkin segja til um hver áhættan sé á að ofnæmissjúklingar sýni einkenni við ofnæmisvöldum og er henni skipt niður í þrjá flokka: lítil áhætta, nokkur áhætta og mikil áhætta. Þess ber að geta að mörkin eru ekki þau sömu fyrir birki- og grasfrjó.

Frjódagatal byggt á meðaltali mælinga hefur verið sett upp á forsíðu vefs Náttúrufræðistofnunar. Þar geta ofnæmissjúklingar á auðveldan hátt athugað daglega hver áhættan sé á ofnæmisviðbrögðum. Þarna eru notuð sömu áhættumörk yfir frjótímann; lítil áhætta, nokkur áhætta og mikil áhætta. Vonast er til að þessi viðbót nýtist vel.

Áhættumörk fyrir birki:

Lítil áhætta - frjótala undir 30.

Nokkur áhætta – frjótala milli 30 og 100.

Mikil áhætta – frjótala 100 eða hærri.

Áhættumörk fyrir gras:

Lítil áhætta – frjótala undir 10.

Nokkur áhætta – frjótala milli 10 og 50.

Mikil áhætta – frjótala 50 eða hærri.

Eins og áður verða niðurstöður birtar að lokinni talningu á síðu 193 í textavarpinu. Ennfremur er hægt að skrá sig á póstlista fyrir Akureyri eða Garðabæ en niðurstöður talninga eru sendar út vikulega.