Aðfluttar plöntur á Íslandi

Aðfluttar tegundir

Aðfluttar plöntur, einnig þekktar sem framandi plöntur, erlendar plöntur eða slæðingar, eru tegundir sem borist hafa með manninum, annað hvort viljandi eða óviljandi, inn á svæði þar sem þær eru ekki upprunalegar. Margar aðfluttar tegundir eru vel þekktar nytjaplöntur í akuryrkju og garðyrkju, eins og hveiti, sojabaunir, túlípanar, gulrætur o.s.frv. Aðfluttar tegundir hafa hins vegar einnig tilhneigingu til að bjarga sér utan ræktunar og ílendast, og í þeim tilfellum hafa þær oft mikil áhrif á náttúruleg samfélög. Alræmdar eru þær aðfluttu plöntur sem flokkast sem ágengar. Þær verða auðveldlega að plágu, leggja undir sig grasflatir sem illgresi, útrýma innlendum plöntum, spilla náttúrulegum búsvæðum og breyta framvindu vistkerfanna. Bæði hér á landi og annars staðar í heiminum hafa ágengar, aðfluttar plöntur og dýr orðið hin mesta ógn við innlendar tegundir, náttúruleg samfélög og framvindu þeirra. Þau hafa einnig í för með sér verulegan kostnað fyrir þá atvinnuvegi sem reiða sig á hráefni og þjónustu sem háð eru heilbrigðum vistkerfum.

Rannsóknin

Í rannsókninni var tekið saman ítarlegt yfirlit yfir aðfluttar tegundir á Íslandi, það fyrsta síðan 1967. Dreifingarmynstur tegundanna er skoðað og bent á umhverfisþætti sem hafa áhrif á útbreiðslu þeirra á Íslandi. Með nýjustu tækni í gerð tölvulíkana var einnig gerð tilraun til að spá fyrir um áhrif áframhaldandi hlýnunar loftslags á útbreiðslu aðfluttra plantna.

Niðurstöður

Fjallað er um rannsóknina og niðurstöður hennar í grein sem birtist nýlega í alþjóðlega vísindaritinu Flora (sem er elsta vísindaritið í grasafræði og hefur verið gefið út óslitið síðan 1818) Ritgerðin ber heitið „Alien vascular plants in Iceland: Diversity, spatial patterns, temporal trends, and the impact of climate change“. Þar er tilvist 336 aðfluttra plöntutegunda staðfest.

Niðurstöðurnar benda til að loftslagsbreytingar geti haft veruleg áhrif á útbreiðslu aðfluttra plantna á Íslandi. Tegundir sem flokkaðar hafa verið sem ágengar munu líklega hafa sterka tilhneigingu til að leggja undir sig ný svæði við hlýnun loftslags. Spár sýna að svæði með hentugu loftslagi fyrir alaskalúpínu muni stækka mjög mikið til 2050, sem getur stuðlað að landnámi tegundarinnar á stórum svæðum miðhálendisins. Á sama hátt er því spáð að svæði með hentug loftslagsskilyrði fyrir skógarkerfil muni vaxa verulega, þótt í minni mæli sé. Það mun leiða til þess, að hann leggur undir sig ný svæði, sem hann nær ekki til við núverandi aðstæður.

Þessar niðurstöður eru mikilvægt framlag fyrir skipulag í meðhöndlun aðfluttra og ágengra tegunda á Íslandi. Einnig eru þetta heimildir sem nýtast við að kryfja til mergjar rannsóknir á ágengni plantna erlendis.

Við skyldum öll hafa hugfast, að virk dreifing ágengra plantna er eins og hægfara sprenging sem, ef látin er óáreitt, getur gjörbylt náttúrulegum, efnahagslegum og ýmsum menningarlegum aðstæðum ákveðins staðar.

Greinin í fullri lengd

Wasowicz, P., Przedpelska-Wasowicz, E.M. og Kristinsson, H. 2013. Alien vascular plants in Iceland: Diversity, spatial patterns, temporal trends, and the impact of climate change. Flora (2013).