Rangfærslur forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar

Hið rétta í þessu máli er eftirfarandi:

Nýja hús Náttúrufræðistofnunar í Garðabæ er 3.500 fm en ekki 3.000 fm.

Ríkissjóður kostaði ekki bygginguna, sem er í einkaeign, og lagði hvorki fé né ábyrgðir til hennar.

Síðasta ríkisstjórn kom hvorki að byggingu hússins né samningi um leigu á því.


Hús Náttúrufræðistofnunar Íslands í Urriðaholti. Ljósm. Erling Ólafsson.

Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks samþykkti í apríl 2007, að tillögu Jónínu Bjartmars umhverfisráðherra,  að Náttúrufræðistofnun skyldi  fá nýtt húsnæði. Heimild var veitt til að semja um leigu á nýju húsnæði  fyrir Náttúrufræðistofnun, en stofnunin hafði þá verið í húsnæðishraki í marga áratugi.

Eftir útboð Ríkiskaupa var ákveðið haustið 2007 að taka tilboði Urriðaholts ehf. um að byggja 3.500 fm hús og leigja Náttúrufræðistofnun það til 25 ára. Leigusamningur  var undirritaður 1. júlí 2008 í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en hann var gerður í nánu samráði við fjármálaráðuneytið og umhverfisráðuneytið.

Framkvæmdir töfðust um eitt ár vegna hrunsins, en Urriðaholt ehf. átti í vandræðum með að fjármagna bygginguna. Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var þá boðið að taka framkvæmdina yfir og byggja húsið á kostnað ríkisins. Lóðin, teikningar o.fl. áttu að fylgja með í kaupunum án endurgjalds. Ríkisstjórnin hafnaði því vegna bágrar stöðu ríkissjóðs, enda hefði þurft að taka lán fyrir framkvæmdinni.

Náttúrufræðistofnun flutti í nýtt húsnæðið í október 2010.