Birkikemban
vekur á sér athygli


Birkikemba, Heringicrania unimaculella, með gljáandi bronslita vængi og einum áberandi hvítum bletti á hvorum væng. Reykjavík 14. maí 2013. Ljósm. Erling Ólafsson.

Birkikembu, Heringocrania unimaculella, varð fyrst vart í Hveragerði árið 2005 og tveim árum síðar í Fossvogi í Reykjavík. Í kjölfarið dreifðist hún hægt og bítandi um Fossvogsdalinn. Fljótlega varð fjölgun með slíkum hraða að allt höfuðborgarsvæðið varð undir og nýir fundarstaðir á suðvestanverðu landinu litu dagsljósið. Enn sem komið er heldur birkikemban sig við garðtré en fullt eins víst er að hún leiti út í birkiskógana okkar innan tíðar.

Fiðrildin fljúga á vorin en þau skríða úr púpum í fyrrihluta apríl og hverfa að mestu upp úr miðjum maí. Á þeim tíma verpa þau á brum birkis og eggin klekjast þegar tré taka að laufgast. Lirfurnar smjúga þá inn í laufblöðin, koma sér þar fyrir og éta innvefi þeirra. Eftir því sem lirfurnar dafna taka blöðin að sölna og á endanum standa einungis eftir ysta lag efra- og neðraborðs blaðs sem blæs út eins og brúnn belgur. Fullvaxnar lirfur skríða út úr belgnum og hverfa niður í svörð þar sem þær púpa sig og bíða þess að klekjast næsta vor. Birkikemba er sannarlega skaðvaldur á birkinu og eru ummerkin bæði ljót og veruleg. Tegundin er gott dæmi um nýliða í smádýrafánunni sem tengjast innflutningi á gróðurvörum og hlýnandi veðurfari. Hún vekur lítinn fögnuð.

Það má fræðast frekar um birkikembu á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.


Birkikemba; lítið fer fyrir henni þar sem hún situr á trjágreinum og hefur hægt um sig; fullkominn felulitur á trjáberki. Ljósm. Erling Ólafsson.

 


Lauf birkitrés með einkennandi ummerkjum eftir lirfur birkikembu. Mógilsá í Kollafirði 11. júní 2012. Ljósm. Erling Ólafsson.