Styrkur til rannsókna á eldstöðvakerfi Bárðarbungu

Markmið verkefnisins er að taka saman gögn um jarðfræði og gossögu eldstöðvakerfis Bárðarbungu og setja fram á aðgengilegan hátt. Bárðarbungukerfið er mesta eldstöðvakerfi landsins, en til þess teljast Veiðivatna- og Dyngjuhálsgosreinarnar ásamt megineldstöðvum í Bárðarbungu og Hamrinum. Staða þekkingar verður könnuð og upplýsingar samræmdar. Þá verða farnar vettvangsferðir um svæðið í þeim tilgangi að samræma upplýsingar frekar og fylla í eyður. Kerfinu verður síðan lýst á aðgengilegan hátt og mikilvægi jarðminja dregið fram. Þá verða lögð drög að áhugaverðum rannsóknarverkefnum fyrir framhaldsnema í jarðvísindum. Gert er ráð fyrir að ljúka verkefninu í árslok 2014. Verkefnisstjóri er Kristján Jónasson, jarðfræðingur.

Vinir Vatnajökuls eru frjáls félagasamtök sem voru stofnuð árið 2009. Síðan 2010 hafa samtökin árlega veitt styrki í verkefni sem falla undir rannsóknir, kynningu og fræðslu um Vatnajökulsþjóðgarð og nágrenni hans, nú síðast 23. nóvember sl. þegar 30 styrkjum var úthlutað, þar á meðal til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Sjá nánar á vef Vina Vatnajökuls.