Náttúrugripagreining á degi íslenskrar náttúru

Fyrir tveimur árum ákvað ríkisstjórn Íslands að tileinka íslenskri náttúru sérstakan heiðursdag til að undirstrika mikilvægi hennar. Dagurinn sem valinn var er 16. september, fæðingardagur Ómars Ragnarssonar, en sem frétta- og þáttagerðarmaður hefur hann verið óþreytandi við að opna augu almennings fyrir þeim auðæfum sem felast í náttúru landsins og mikilvægi þess að vernda hana og varðveita.

Í tilefni af deginum er boðið upp á ýmsa viðburði víða um land og á höfuðborgarsvæðinu. Náttúrufræðistofnun Íslands ætlar að halda upp á daginn með því að bjóða upp á náttúrugripagreiningar milli klukkan 14 og 16. Almenningi gefst þá kostur á að fá sérfræðinga stofnunarinnar til að greina fyrir sig náttúrugripi að Urriðaholtsstræti 6-8 í Garðabæ og að Borgum við Norðurslóð á Akureyri.

Í Urriðaholti verða sérfræðingar í steinum, steingervingum, íslenskum plöntum, sjávardýrum, fuglum og villtum spendýrum. Þeir taka á móti gestum í rúmgóðu anddyri stofnunarinnar en húsið verður ekki opið að öðru leyti.

Á Akureyri verða sérfræðingar í sveppum, íslenskum plöntum, fléttum, fuglum og steinum. Ennfremur munu starfsmenn á Akureyri kynna starfsemi stofnunarinnar.
 

Sjá nánar dagskrá á degi íslenskrar náttúru á vef umhverfisráðuneytis.