Kanínur
eiga ekki þegnrétt í náttúru Íslands að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands


Tvær framandi tegundir í náttúru Íslands, kanína og alaskalúpína. Ljósm. Trausti Baldursson.

Það er opinbert mat Náttúrufræðistofnunar að kanínan sé framandi tegund sem beri að útrýma í villtri náttúru landsins eða að öðrum kosti hafa stranga stjórn á í samræmi við íslensk lög og alþjóðlegar skyldur þar að lútandi. Kanínur eru gæludýr en ekki hluti af fánu landsins. Það breytir engu að kanínur hafi oft sloppið út í náttúruna frá því á nítjándu öld en ævinlega dáið út eftir einhvern tíma. Undanfarin ár hefur kanínum víða verið sleppt hér á landi úr vörslu manna og þær náð að lifa af og fjölga sér vegna hlýnandi loftslags. Þetta tímabundna ástand veitir þeim þó ekki neinn þegnrétt í villtri fánu landsins. Þvert á móti er kanínan nú skráð sem mögulega ágeng framandi tegund hér á landi á alþjóðlegum lista yfir ágengar framandi tegundir í Evrópu (NOBANIS). Í mörgum öðrum löndum Evrópu eru kanínur taldar til ágengra framandi tegunda sem beri að útrýma, t.d. í Svíþjóð, Finnlandi og Póllandi.