Rannsóknir á íslenska refastofninum

Mat á íslenska refastofninum hefur staðið yfir frá árinu 1979 þegar Páll Hersteinsson, þá í doktorsnámi, skrifaði refaskyttum bréf og bað þá um samstarf með því að senda sér kjálka úr felldum dýrum til aldursgreiningar. Árið 1985 hóf hann síðan að kryfja refi til frekari mælinga. Stofnmatið hefur staðið sleitulaust undanfarin 32 ár og frá upphafi verið í höndum Páls heitins, sem lést þann 13. október síðastliðinn.

Melrakkasetur Íslands hefur boðist til að halda áfram rannsóknum Páls, í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Háskóla Íslands og Náttúrustofu Vestfjarða. Umhverfisráðuneytið hefur nú veitt verkefninu styrk úr Veiðikortasjóði þannig að nú er komið fjármagn til að hefjast handa.

Eins og áður eru rannsóknirnar alfarið byggðar á góðu samstarfi við veiðimenn um allt land. Mikilvægt er að fá gott þversnið af stofninum og því er óskað eftir því að fá send hræ af öllum svæðum og árstímum til krufninga.

Með hverju sendu hræi skal fylgja útfyllt eyðublað þar sem fram koma upplýsingar um veiðina, dagsetningu og skotstað. Því nákvæmari upplýsingar sem koma með dýrinu, því betur nýtist það til rannsókna. Eyðublöðin má nálgast á vef Melrakkasetursins.

Mikilvægt er að ganga vel frá hræinu og að það sé sem „nýlegast“ þannig að hægt sé að framkvæma mælingar á því. Sem dæmi um góðan frágang er að setja útfyllta eyðublaðið í plastpoka sem bundinn er við fótlegg dýrsins. Dýrið er sett í poka eða kassa og í frysti eða geymt á köldum stað þar sem hræætur ná ekki til þess þangað til það er sent. Ef ekki fylgir eyðublað má festa spjald við dýrið þar sem fram kemur nafn skyttu, dagsetning og skotstaður.

Skyttur fá enga umbun fyrir að bera hræ til byggða, fylla út eyðublaðið og senda hræin, aðra en þá að fá upplýsingar um helstu niðurstöður krufninga og aldursgreininga á þeim dýrum sem þeir senda.

Hægt er að senda hræin merkt sem frostvöru, á kostnað verkefnisins, með flutningafyrirtækjum til Náttúrufræðistofnunar Íslands, Urriðaholtsstræti 6-8, 212 Garðabæ. Á Vestfjörðum er áætlað að hræjunum verði komið til áhaldahúss í þeim sveitafélögum sem eru tilbúin til slíks samstarfs. Þar verða hræin geymd í frystigeymslum þar til þau eru krufin. Að öðrum kosti eru hræ send sem frystivara til Náttúrustofu Vestfjarða, Aðalstræti 21, 415 Bolungarvík. Pakkinn skal merktur sem frostvara og með innihaldslýsingu. Símanúmer sendanda og viðtakanda, 5 900 500, fylgi með.

Vonast er eftir góðu samstarfi við refaveiðimenn en slík samvinna er hagkvæmasta leiðin í rannsóknum á íslenska refastofninum sem völ er á. Umsjón með rannsóknunum er í höndum Esterar Rutar Unnsteinsdóttur hjá Melrakkasetri Íslands, Eyrardal, 420 Súðavík (s. 456 4922 og 862 8219).