Hrafna-Flóki og félagar á Hvaleyri í Hafnarfirði

Sigurður Sigurðarson er húsasmíðameistari og skipasmiður en eftir að hann lét af störfum hefur áhugi hans beinst að Íslendingasögum og Landnámu, auk þess sem hann stundar útskurð. Áhugamálin tvö sameinar hann þegar hann sker sögurnar út í við. Listaverkið sem Sigurður færði Náttúrufræðistofnun Íslands er skorið út í lindartré og sýnir þann atburð í Íslandssögunni þegar Flóki Vilgerðarson, Hrafna-Flóki, og félagar hans fundu rekinn búrhval á eyri út frá Hafnarfirði, sem síðan hefur verið kölluð Hvaleyri.


Jón Gunnar Ottósson forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands tekur á móti höfðinglegri gjöf Sigurðar Sigurðarsonar. Ljósm. María Harðardóttir

 


Trélistaverk Sigurðar Sigurðarsonar, Fantasía um komu Hrafna-Flóka Vilgerðarsonar og félaga á Hvaleyri sumarið 870. Á myndinni sjást Hrafna-Flóki, Herjólfur, Þórólfur smjör og Faxi, skip þeirra félaga, búrhvalurinn og hrafnarnir þrír. Í bakgrunni er sólin að setjast bak við Snæfelljökul. Ljósm. María Harðardóttir

Í Landnámu segir frá því að Flóki hafi upphaflega haldið af stað frá Noregi vestur um haf til að leita lands sem fréttir höfðu borist af. Hann ætlaði að setjast þar að og þess vegna voru með í för fjölskylda hans og frændlið, auk búfénaðar. Af förunautum Flóka eru nefndir þeir Herjólfur, Þórólfur og Faxi. Flóki hafði með sér þrjá hrafna sem hann hafði blótað í Noregi og lét þá vísa sér leið til Íslands. Hann sleppti fyrst einum og flaug sá aftur um stafn í átt til Færeyja, sá næsti flaug í loft upp og aftur til skips en sá þriðji flaug fram um stafn í þá átt sem Flóki og félagar fundu landið. Þeir komu að Horni eystra, síðan sigldu þeir suður og vestur fyrir land og námu land í Vatnsfirði á Barðaströnd. Vatnsfjörður mun hafa verið fullur af fiski og nýbúarnir stunduðu veiðar svo stíft að ekkert varð úr heyskap og öðrum nauðsynlegum undirbúningi fyrir íslenskan vetur. Þess vegna drapst allt kvikféð um veturinn. Vorið var heldur kalt og þá gekk Flóki upp á fjall eitt hátt og sá fyrir norðan fjöllin fjörð, líklega Arnarfjörð, fullan af hafís. Því kölluðu þeir landið Ísland sem það hefur síðan heitið.

Flóki og fylgdarlið hans ákváðu að fara burt og héldu úr Vatnsfirði þegar langt var liðið á sumar. Þeir náðu ekki að sigla fyrir Reykjanes og urðu Flóki og Herjólfur viðskila í mynni Faxaflóa. Herjólfur kom að landi í Herjólfshöfn en Flóki hafði vetursetu í Borgarfirði. Næsta sumar kom Flóki í Hafnarfjörð og þar fundust þeir Herjólfur. Þá erum við komin að þeim stað í sögunni sem tengir okkur við trélistaverk Sigurðar því á þessum tíma fundu Flóki og félagar hans hvalinn á eyrinni sem þeir kölluðu þá Hvaleyri. Menn hafa leitt að því getum að Herjólfshöfn sé Hvaleyrartjörn en hún var höfnin í Hafnarfirði sem fjörðurinn dregur nafn sitt af.

Þess má geta að hrafn er einkennismerki Náttúrufræðistofnunar Íslands og ástæðan fyrir því að hann varð fyrir valinu var meðal annars sú að hann er áberandi í íslenskri náttúru og tengist landnámi Íslands og Hrafna-Flóka.