Fuglamerkingar á Íslandi í 90 ár - fræðslufundur Fuglaverndar


Margæs með litmerki á fótum og sendi á baki. Ljósm. Daníel Bergmann.

Árið 1921 hófust fuglamerkingar á Íslandi fyrir tilstilli danska fuglafræðingsins Peter Skovgaard. Hann sendi merki til Íslands og fékk nokkra menn til liðs við sig til að merkja fugla. Sjálfur kom hann aldrei til Íslands en á hans vegum voru tæplega 14 þúsund fuglar merktir og endurheimtust 752 þeirra (471 innanlands og 281 erlendis). Merkingar á vegum Íslendinga hófust 1932 og hafa á þeim 80 árum sem liðin eru um 600 þúsund fuglar verið merktir og um 35 þúsund endurheimst. Fjallað verður um fuglamerkingar, hvaða tegundir hafa helst verið merktar, varðveislu gagna og sýnd nokkur dæmi um niðurstöður, m.a. hvar íslenskir fuglar eyða vetrinum.

Fundurinn er haldinn í húsakynnum Arionbanka, Borgartúni 19 og hefst hann kl. 20:30. Hann er öllum opinn svo lengi sem húsrúm leyfir. Aðgangur er ókeypis fyrir félaga í Fuglavernd en aðgangseyrir er 500 krónur fyrir aðra. 

Heimasíða Fuglaverndar