Aldurshlutföll rjúpu á veiðitíma 2011

Niðurstöður verða birtar jafnóðum hér á vef Náttúrufræðistofnunar en þær verða meðal annars notaðar við mat á stofnstærð rjúpunnar í landinu.


Karri á flugi, á vinstri væng má sjá að hann er á fyrsta ári. Ljósm. Daníel Bergmann.

 

Sendið vængina til Náttúrufræðistofnunar

Sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar hafa um áratuga skeið rannsakað aldurshlutföll í rjúpnaafla. Á lit flugfjaðra rjúpunnar er hægt að greina á milli tveggja aldurshópa, fugla á fyrsta ári og eldri fugla. Þessi gögn eru m.a. notuð til að reikna út heildarstofnstærð rjúpunnar í landinu og til að rannsaka afföll. Veiðimenn, sem tilbúnir eru að taka þátt í þessari könnun, eru beðnir um að klippa annan vænginn af öllum rjúpum sem þeir fella. Fuglum af sama veiðisvæði eða úr sömu sveit ber að halda sér í poka þannig að hægt sé að sundurgreina sýnin eftir landshlutum.

Vængina á að senda til:

Náttúrufræðistofnun Íslands
Urriðaholtsstræti 6-8
Pósthólf 125
212 Garðabær

Athugið að þetta er nýtt heimilsfang Náttúrufræðistofnunar. Stofnunin greiðir sendingarkostnað sé þess óskað. Menn eru beðnir um að láta nafn sitt og heimilisfang fylgja með sýnum þannig að hægt sé að senda þeim, sem það vilja, niðurstöður greininga úr þeirra sýni og heildarniðurstöðurnar í lokin.


Flugfjaðrir á fyrsta árs fugli. Ljósm. Erling Ólafsson

Litur flugfjaðra segir til um aldur

Til að aldursgreina rjúpur bera menn saman lit á flugfjöður nr. 2 og flugfjöður nr. 3 (talið utan frá). Fjaðurstafurinn sjálfur er alltaf dökkur hjá íslenskum rjúpum óháð aldri en við aldursgreiningu er litur fananna skoðaður, ekki fjaðurstafanna. Hjá fuglum á 1. ári er flugfjöður nr. 2 dekkri en nr. 3 eins og hér sést. Ef smellt er á myndina hér til hægri, sést samanburðurinn. Hjá fullorðnum fuglum, fuglum á 2. ári og eldri, eru fjaðrir nr. 2 og 3 jafndökkar eða nr. 3 dekkri. Hjá sumum fullorðnum fuglum eru engin litarefni í fönum flugfjaðra nr. 2 og 3.

Niðurstöður aldursgreininga frá veiðitíma 2010

Samtals voru aldursgreindar 5136 rjúpur frá veiðitíma 2010 (sjá töflu). Samandregið fyrir allt landið var hlutfall ungfugla 75%. Þetta er svipað hlutfall og hafði verið frá 2007 (sjá línurit). Breytingar á aldurshlutföllum sýna tengsl við stofnbreytingar og þá þannig að hlutfall ungfugla í hauststofni er hvað hæst tveimur til þremur árum fyrir hámark í stofnstærð rjúpunnar. Samanber rjúpnatoppana 1986, 1998 og 2010 en þá voru ungahlutföll hæst 1984, 1995 og 2008.  

 

Veiðitími 2010        
Landshluti Fullorðnir Ungar Samtals % ungar
Suðvesturland 10 36 46 78%
Vesturland 98 183 281 65%
Vestfirðir 163 486 649 75%
Norðvesturland 289 873 1162 75%
Norðausturland 421 1632 2053 79%
Austurland 215 494 709 70%
Suðurland 72 164 236 69%
Samtals 1268 3868 5136 75%

Ungahlutfall í veiði á tímabilinu 1983-2010

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Aldursgreiningar 2011

Stofnstærð rjúpunnar er mun minni nú í haust en verið hefur undanfarin ár og viðbúið að erfitt muni reynast að ná nægilega stórum sýnum úr einstökum landshlutum. Fyrstu sýnin eru komin í hús og gefa misvísandi niðurstöður, annars vegar hátt hlutfall unga frá Vestfjörðum og hins vegar mjög lágt hlutfall af Suðurlandi. Stefnt er að því að aldursgreina 200 til 400 fugla úr hverjum landshluta eða samtals 2000-3000 rjúpur.

 

Veiðitími 2011        
Landshluti Fullorðnir Ungar Samtals % ungar
Vestfirðir 2 10 12 83%
Suðurland 8 3 11 27%
Samtals 10 13 23 57%