Krían og kreppan - varpvistfræði kríunnar á Snæfellsnesi


Kría á flugi. @Freydís Vigfúsdóttir

Síðastliðin þrjú ár (2008-2010) hefur varpvistfræði kría verið könnuð í tólf vörpum á Snæfellsnesi. Markmið rannsóknarinnar hefur verið að kanna ástæður víðtæks varpbrests sem hefur verið árlegur síðan 2005. Hægur ungavöxtur og léleg varpafkoma (0,1–0,5 ungi/hreiður) var einkennandi öll árin ásamt víðtækum ungadauða sem tengdist lágri tíðni fæðugjafa og skorti á viðunandi æti. Tímasetning ungadauða og athuganir á fæðugjöfum bentu til viðvarandi ætisskorts á ungatíma frekar en að þær orsökuðust af einstökum atburðum, s.s. vegna veðurs. Þó mældist staðbundinn munur á fæðu og árangri milli varpa, þar sem betur gekk í litlum vörpum á innanverðu Snæfellsnesi en í stórum vörpum á utanverðu nesinu. Í heild var varpárangur mjög lélegur á Snæfellsnesi 2008-2010 og ljóst að aðstæður til varps og ungauppeldis hafa verið óviðundandi undanfarin ár. Ef varpbrestur verður áfram viðvarandi er líklegt að verulegra stofnbreytinga verði vart í framtíðinni.

Freydís leggur stund á doktorsnám í dýravistfræði við University of East Anglia í Englandi og vinnur að doktorsverkefni í samstarfi við Háskólasetur Snæfellsness og Náttúrufræðistofnun Íslands um vistfræði kríu. Titill verkefnisins er: Drivers of productivity in a subarctic seabird - The Artic tern in Iceland. Í erindi sínu mun hún kynna þær niðurstöður sem liggja fyrir og svara spurningum sem kunna að vakna.

Fundurinn verður haldinn í húsakynnum Arion banka, Borgartúni 19, 18. janúar kl. 20:30. Fundurinn er öllum opinn en aðgangseyrir er 500,- kr. fyrir aðra en félagsmenn Fuglaverndar.

Fjallað er um verkefni Freydísar í Morgunblaðinu í dag, 17. janúar.