Fiðrildi berast á þöndum vængjum til landsins

Á Náttúrufræðistofnun hefur verið fylgst með þessum atburði og upplýsingar skráðar. Dagana 6.-14. september hafa alls komið fram við eftirgrennslan tíu tegundir útlendra fiðrilda. Upplýsingar um stærri og skrautlegri fiðrildin hafa fyrst og fremst borist frá fólki sem slík hafa séð á förnum vegi en aðrar tegundir hafa öllu heldur hafnað í fiðrildagildrum sem reknar eru vegna verkefnis sem tengist vöktun fiðrilda.



Forarsveifa er ein af þeim smádýrategundum sem fræðast má um á pödduvef Náttúrufræðistofnunar. Ljósm. Erling Ólafsson.



Forarsveifa er ein af þeim smádýrategundum sem fræðast má um á pödduvef Náttúrufræðistofnunar. Ljósm. Erling Ólafsson.

Kóngasvarmi (Agrius convolvuli). Garðabær, 7. september 2010. Ljósm. Erling Ólafsson. Aðmírálsfiðrildi (Vanessa atalanta), Kópavogur, 8. september 2010. Ljósm. Erling Ólafsson.

Kóngasvarmi er stærst fiðrilda sem hingað berst. Hans verður vart síðsumars og á haustin flest ár en í mismiklum fjölda. Allnokkrir kóngasvarmar hafa sést á sunnanverðu landinu þessa vikuna, frá Garðabæ austur í Hornafjörð, mest fjórir á Kvískerjum í Öræfum.

Svipaða sögu er að segja af aðmírálsfiðrildi og kóngasvarma. Það berst hingað einnig í mismiklum mæli nær árlega frá því snemma í júní og fram á haust, flest þó á haustin. Nokkur hafa sést undanfarna daga á svipuðum slóðum og kóngasvarmarnir, þ.e. frá höfuðborgarsvæðinu austur í Hornafjörð.

Páfiðrildið fagra sást á flögri í Mosfellsdal en það á sér eflaust aðra upprunasögu en þau hin. Það er nefnilega ekki vitað til þess að páfiðrildi geti borist hingað með vindum. Þau koma með varningi.

Flestar tegundir flækingsfiðrilda eru af ygluætt (Noctuidae), en allmargar slíkar tegundir koma reglulega hingað til lands, - eða af og til. Stundum er fjöldinn umtalsverður en það er breytilegt hver tegundanna er algengust hverju sinni. Gammaygla, skrautygla og garðygla eru að öllu jöfnu líklegastar til að skera sig úr og stundum asparygla. Allar þessar tegundir hafa skilað sér til landsins í þessari göngu en þó ekki í teljandi fjölda. Að þessu sinni hefur netluygla stolið senunni. Það var afar óvænt því hún hefur til þessa verið mjög fáséður gestur hér á landi. Aðfaranótt 10. september komu tíu netluyglur í fiðrildagildrur á Kvískerjum í Öræfum og áfram næstu nætur þar til sú síðasta skilaði sér aðfaranótt 14. september. Alls höfðu þá veiðst um 50 netluyglur og þykir það undrum sæta. Ein enn fágæt ygla, Hydraecia micacea, sem ekki hefur hlotið íslenskt heiti enn, skilaði sér einnig í gildru á Kvískerjum en aðeins eitt eintak.

Þá skal nefna gulyglu sem virðist hafa borist með göngunni til landsins að þessu sinni. Tegundin á reyndar fasta búsetu hér en fær stundum til sín erlenda gesti sömu tegundar. Kálmölur er síðasta tegundin í þessari upptalningu. Hann er langminnstur flækingsfiðrilda hér á landi og algengastastur þeirra. Hins vegar átta fæstir sig á því að hér sé um útlending að ræða þegar hann ber fyrir augu. Kálmöls hefur orðið vart í litlum mæli að þessu sinni. Kálmölur á það til að fjölga sér hér á landi og grunur leikur á að hann lifi af veturinn íslenska, stundum að minnsta kosti. Hagur hans vænkast með hlýnandi veðurfari.

Að lokum má nefna að tilkynning barst um mikinn fjölda af gullglyrnum við sumarhús í Lóni að kvöldi 10. september en þær hurfu fljótt. Ekki hefur spurst til þeirra annars staðar frá enn sem komið er. Gullglyrna er netvængja, ekki fiðrildi, en hún er gædd mikilli flökkunáttúru.

Haustið er aðalárstími flækingsfiðrilda og má eiga von á slíkum sendingum fram eftir október, jafnvel lengur.