Eyjafjallajökull - Eldvirkni á Fimmvörðuhálsi á nútíma


Ung hraunlög og móbergshryggir á Fimmvörðuhálsi (Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson 2005). Bætt hefur verið inn á kortið gossprungu, gjalli og hrauni frá 20.–22. mars 2010, samkvæmt samantekt Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landhelgisgæslu Íslands. Jarðfræði vestan- og norðvestan Mýrdalsjökuls (kort).

„Fimmvörðuháls er eldbrunninn og virðist sem a.m.k. 6–8 gos hafi runnið þar eftir að jöklar síðasta jökulskeiðs hurfu af svæðinu. Ekki er líklegt eftir útliti þeirra að dæma að þessar myndanir séu eldri, eða frá því að jökull lá yfir svæðinu allt til sjávar. Hafi Fimmvörðuháls orðið íslaus á síðasta jökulskeiði og þessar myndanir eru allar frá þeim tíma mætti ætla að jökulrofs myndi gæta mun meira á hraununum en raun ber vitni. Því má álykta að Fimmvörðuháls hafi verið eldvirkur á fyrri hluta nútíma og þar megi því vænta eldgosa í framtíðinni“ (Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson 2005). Áður höfðu meðal annarra Sveinn Jakobsson og Jón Jónsson fjallað um þessar myndanir og talið þær frá nútíma.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar fóru á vettvang 22. mars og tóku meðfylgjandi myndir:


Gos á Fimmvörðuhálsi (kl. 18:58). Myndin er tekin í um 10 km fjarlægð frá gosstöðvunum. Áreyrar í forgrunni eru í um 200 m hæð yfir sjó, meðan gosstöðvarnar eru í um 1000 m hæð. Séð frá Markarfljótsaurum austan Þórólfsfells, yfir Þórsmörk. Valahnúkur snjólaus til vinstri, Brattafönn efst fyrir miðju. Vinstra megin við Bröttufönn sjást gufubólstrar stíga upp frá hrauni sem rennur í Hrunagil. Ljósm. Kristján Jónasson.

Gos á Fimmvörðuhálsi (kl. 18:48). Kvikustrókar rísa upp úr dökkum nýmynduðum gjallgígum. Ljósm. Kristján Jónasson.

Gos á Fimmvörðuhálsi (kl. 19:17). Ljósm. Kristján Jónasson. Myndirnar spanna 8 sekúndur.


Heimildir:

Helgi Torfason og Höskuldur Búi Jónsson 2005. Jarðfræði við norðvestanverðan Mýrdalsjökul. Í: Hættumat vegna eldgosa og hlaupa frá vestanverðum Mýrdalsjökli og Eyjafjallajökli. Ritstjórn Magnús T. Guðmundsson og Ágúst G. Gylfason. Ríkislögreglustjórinn, Háskólaútgáfan 2005.

Jón Jónsson. 1998. Eyjafjöll. Drög að jarðfræði. Rannsóknastofnunin Neðri Ás, No.53, 111 s, Hveragerði.

Sveinn P. Jakobsson. 1979. Petrology of recent basalts of the Eastern Volcanic Zone, Iceland. Acta Naturalia Islandica 26, 103 s, Reykjavík.