Yfirlit frjómælinga sumarið 2009

Reykjavík

Heildarfjöldi frjókorna í Reykjavík varð 3911; 1958 grasfrjó, 394 birkifrjó, 193 asparfrjó og 276 súrufrjó. Frjókorn ýmissa tegunda sem jafnan ber lítið á voru 1090. Að þessu sinni er þar um að ræða 28 frjó- og gróhópa. Enginn þeirra reyndist vera með yfir 5% frjókorna en fjórir voru með yfir 2%. Þetta voru hóparnir víðifrjó, furufrjó, netlufrjó og frjó af rósaætt. Langalgengast er að hver hópur sé um eða undir 1%.

Samkvæmt veðurfarsyfirlitum Veðurstofunnar var meðalhiti allt mælitímabilið (apríl–september) yfir meðallagi. Úrkoma var yfir meðallagi bæði í apríl og maí svo og í september. Úrkoman í maí dró vafalítið úr frjódreifingu hjá trjátegundunum ösp og birki sem oft hefur verið meiri. Hægviðri í júní gæti skýrt lágar frjótölur í þeim mánuði, mun lægri en undanfarin þrjú sumur.

Akureyri

Heildarfjöldi frjókorna varð 2330 í rúmmetra lofts sem er um 14% undir meðallagi áranna 1998–2008. Birkifrjó reyndust algengust, 902, og voru vel yfir meðallagi. Er það í fyrsta skipti sem birkifrjó eru fleiri en grasfrjó. Frjókorn af grasætt voru 767, rétt um helmingur meðallags. Asparfrjó mældust yfir meðallagi (144) en fjöldi súrufrjóa (33) hafa bara einu sinni verið færri og var það í fyrra. Öll önnur frjókorn og gró, alls 26 mismunandi gerðir, reyndust 484, sem er heldur færra en í meðalári.

Samkvæmt veðurfarsyfirlitum Veðurstofunnar var meðalhiti á Akureyri yfir meðallagi alla mánuði mælitímabilsins. Þrátt fyrir nærri tvöfalt meiri úrkomu í maí en í meðalári urðu frjókorn flest í þeim mánuði og fleiri en nokkru sinni áður í maí. Það rigndi meira bæði í ágúst og september, en júní reyndist hins vegar mjög þurr og júlí heldur þurrari en í meðalári. Þetta endurspeglast þó ekki í frjótölum.

 



Garðaklaufhali og Krásarbobbi.



Garðaklaufhali og Krásarbobbi.

Fura dreifir frjókornum. Ljósm. Ágúst Úlfar Sigurðsson. Frjógildra. Ljósm. Margrét Hallsdóttir.

 

Frekari upplýsingar um frjómælingar 2009 er að finna  í fréttatilkynningum:
Akureyri

Reykjavík

 

Frjómælingar á Íslandi

Frá árinu 1997 hefur Náttúrufræðistofnun Íslands ásamt Veðurstofunni haft veg og vanda af frjómælingum á Íslandi. Þær hófust í Reykjavík vorið 1988 fyrir tilstyrk Vísindasjóðs, Astma- og ofnæmisfélagsins og Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands. SÍBS styrkti frjómælingar í fjölmörg ár. Vorið 1998 fékkst styrkur frá Rannís til kaupa á nýrri frjógildru og hófust þá mælingar einnig á Akureyri.

 

Frekari upplýsingar um frjómælingar á vef Náttúrufræðistofnunar.