Skógarmítill - blóðsuga sem ber með sér sýkla


Skógarmítill. Stærð 11 mm. Ljósm. Erling Ólafsson.

Skógarmítill er blóðsuga á spendýrum sem heldur sig í gróðri, einkum í skógarbotnum. Þegar hann vantar blóð skríður hann upp í gróðurinn og krækir sig við blóðgjafa á leið um hann, sem er oftast meðalstórt og stórt spendýr. Skógarmítill er varasamur því hann getur borið alvarlega sýkla í fórnarlömb sín, t.d. bakteríuna Borrelia burgdorferi sem getur valdið alvarlegum skaða á taugakerfi.

Lífshættir skógarmítils á Íslandi eru ókannaðir en flestir hafa fundist á mönnum, hundum og köttum. Skógarmítlar hafa fundist hér frá því snemma sumars og fram eftir hausti, á tímabilinu 3.6.–1.11.

Skordýrafræðingur Náttúrufræðistofnunar, Erling Ólafsson, mælir með því að fólk sé á varðbergi ef þeir verða fyrir biti og finna einhver einkenni, t.d. útbrot í húð. Þá er ráðlegt að leita til læknis.

Frekari upplýsingar um skógarmítilinn er að finna á pödduvef Náttúrufræðistofnunar.