Gróðurbreytingar við Lagarfljót - kynning á niðurstöðum 30 ára rannsókna

Lagarfljótsrannsóknirnar spanna yfir um 30 ára tímabil og eru því ein lengsta samfellda röð vöktunar á gróðurfari á landinu. Þær hafa sýnt hvernig gróður hefur breyst í kjölfar virkjunar við Lagarfoss og veita jafnframt mikilvægan grunn að frekari vöktun við fljótið vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Sigurður H. Magnússon, gróðurvistfræðingur kynnti skýrsluna og Sigurður Eymundsson var fundarstjóri. Í lok erindisins voru nokkrar umræður um efni skýrslunnar og framhald rannsóknanna. Góð mæting var á fundinn en hann var sértaklega haldinn fyrir þá sem hagsmuna eiga að gæta við fljótið svo sem landeigendur, fulltrúa Landsvirkjunar, Orkusölunnar og RARIK.


Landbrot við Rangá II. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 2004.

Á láglendissvæðunum við Lagarfljót er að finna allt frá mjög blautu votlendi upp í þurrlendi. Með virkjun Lagarfoss árið 1975 breyttist vatnafar og flóðamynstur í fljótinu. Vatnsborð hækkaði að meðaltali um 190 cm við Lagarfoss en um 30 cm inn við Lagarfljótsbrú. Hækkun varð að sumri en einkum þó að vetri. Niðurstöðurnar sýna að mýrastör var og er enn langalgengust og þekjumest allra háplöntutegunda við fljótið. Þá kom fram að tegundasamsetning og þekja margra tegunda er sterklega tengd grunnvatnsstöðu í jarðvegi. Tegundir voru fæstar þar sem land var blautast en þeim fjölgar eftir því sem land er þurrara. Sýrustig í jarðvegi var lægst og jarðvegur kolefnisríkastur þar sem land var blautast en sýrustig hækkar og kolefnismagn minnkar á þurrara landi.


Láglendi við Lagarfljót í Dagverðargerði í Hróarstungu. Vegna hækkunar vatnsborðs í fljótinu hafa orðið verulegar breytingar á bökkum vegna landbrots, gróður hefur eyðst í mestu lægðum og tjarnir stækkað. Land hefur einnig blotnað upp og gróður breyst. Ljósm. Sigurður H. Magnússon 2004.

Talsverðar breytingar urðu á gróðri sem rekja má annars vegar til hækkaðs vatnsborðs, breytts flóðamynsturs og landbrots en hins vegar til minnkandi sauðfjárbeitar.

Gróðurbreytingar sem rekja má til hækkaðrar grunnvatnsstöðu voru langmestar utan við Lagarfljótsbrú og komu þær fram á blautu, deigu og allþurru landi. Þar sem vatnsborð hækkaði mest drapst gróður að mestu. Svæði vaxin flóagróðri blotnuðu enn frekar og eindregnar flóategundir eins og tjarnastör, gulstör, vetrarkvíðastör og horblaðka urðu ríkjandi í gróðri. Innan við Lagarfljótsbrú voru þessar breytingar litlar.

Áhrif minnkandi sauðfjárbeitar voru mjög greinileg, einkum utan við Lagarfljótsbrú en þar var mikil aukning á gulvíði, loðvíði og grávíði. Aukning birkis síðasta áratuginn (1995–2004) er af sama toga. Víðast hvar minnkaði heildarþekja mosa og fléttna sem rakin var til aukinnar hæðar og meiri þéttleika háplantna vegna minnkandi beitar og hlýnandi loftslags.

Landbrot var mest utan við Egilsstaði en úr því hefur dregið hin síðari ár. Leiddar voru líkur að því að við landbrotið og þær gróðurbreytingar sem urðu af völdum vatnsborðshækkunar í fljótinu hafi talsverður hluti af besta beitilandinu á bökkum fljótsins tapast.

Í skýrslunni er fjallað um þær breytingar á gróðri og landbroti sem kunna að verða með tilkomu Kárahnjúkavirkjunar og lagðar fram tillögur um framhald rannsóknar.

Hér getið þið nálgast skýrsluna í PDF skjali.