Spánarsniglar á faraldsfæti 2008

Landshornin

Fáeinum dögum eftir að spánarsnigilinn árrisuli fannst á Ólafsfirði fundust tveir til viðbótar í sama garði. Þar með er ekki öll sagan sögð því í byrjun júlí fundust enn fimm sniglar í blómabeði í garðinum þeim. Það er því ljóst að sniglarnir hafa komið sér þokkalega fyrir þar norður frá.

Það þóttu slæm tíðindi þegar myndarlegur spánarsnigill fannst í Hnífsdal 21. júlí, en það reyndist annar fundarstaður snigilsins úti á landsbyggðinni. Þar með er ekki öll dreifingarsagan sögð, því spánarsnigill fannst á Höfn í Hornafirði 22. ágúst. Því má með sanni segja að öll landshorn hafi nú fengið vágestinn a.m.k. í heimsókn hvað sem varanlegri búsetu líður. En tíminn einn mun leiða það í ljós.

 


Spánarsnigill (Arion lusitanicus); Reykjavík (Háagerði), 26.8.2008. Ljósm. Erling Ólafsson.

Höfuðborgin

Það eru einnig nokkur tíðindi af höfuðborgarsvæðinu þar sem spánarsniglar höfðu til þessa fundist á nokkrum stöðum í Reykjavík og Kópavogi og einum stað í Garðabæ. Þetta sumar hafa fjórir spánarsniglar frá Reykjavík verið færðir NÍ til skoðunar, þar af tveir úr einum og sama garðinum, og þrír úr Kópavogi.

 

Greiningarvandi

Sá fyrirvari er gerður á tegundagreiningunni að allir rauðir og rauðbrúnir sniglar af ættkvíslinni Arion eru taldir vera spánarsniglar. Í nágrannalöndunum er til önnur rauð tegund, þ.e. rauðsnigill (Arion rufus), sem vitanlega hefur ekki fundist hér á landi. Tegundirnar verða þó ekki aðgreindar með vissu nema með krufningum á kynþroska dýrum.

  


Garðasnigill (Arion subfuscus); Reykjavík (Brautarás), 25.8.2008. Ljósm. Erling Ólafsson.

Meintir vágestir

Spánarsniglar hafa fengið töluverða umfjöllun í fjölmiðlum í sumar og hefur fólk verið hvatt til að koma sniglum sem það telur vera spánarsnigla til Náttúrufræðistofnunar ef þess er kostur eða senda ljósmyndir af þeim. Ekki hefur staðið á tilkynningum um snigla í kjölfar umfjöllunar. Sem betur fer er yfirleitt um aðrar og algengari tegundir snigla að ræða. Algengast er að komið sé með garðasnigil (Arion subfuscus) sem er einn algengasti snigillinn í görðum á höfuðborgarsvæðinu. Hann er skyldur spánarsnigli en miklu minni, þó hann geti orðið nokkurra sentimetra langur. Fólk áttar sig almennt ekki á því hversu stór og mikill spánarsnigillinn kann að verða. Það er ólíku saman að jafna þar sem þessir tveir frændur fara saman. Þá er garðasnigill nokkurn veginn gulbrúnn á lit en ekki á nokkurn hátt rauður.

Annar snigill hefur einnig vakið grunsemdir fólks. Það er pardussnigill (Limax maximus), en eins og fræðiheitið bendir til er þar risi á ferð. Pardussnigill er einnig nýlegur landnemi á höfuðborgarsvæðinu. Honum fjölgar nú hratt og dreifing hans eykst jafnt og þétt. Hann hefur nú lagt undir sig allt þéttbýlið frá Mosfellsbæ og suður í Hafnarfjörð. Pardussnigill er ólíkur spánarsnigli í útliti. Hann er breytilegur á lit, oftast dökk grábrúnn og greina má ljósari langrákir langs eftir afturbúknum og eins lita bletti á fremsta hlutanum. Stundum eru sniglar þessir rauðgulir með svörtum blettum og rákum og minna þá einna helst á pardusdýr. Þegar pardussnigill skríður getur hann teygst upp í 15-17 cm og verður grannur eins og slanga.

 

Limax maximus Limax maximus
Pardussnigill (Limax maximus), dökkt afbrigði; Reykjavík (Stekkjarbakki), 13.7.2004. Ljósm. Erling Ólafsson. Pardussnigill (Limax maximus), ljóst afbrigði; Mosfellsbær (Arnartangi), 15.8.2004. Ljósm. Erling Ólafsson.

 

Hvatning

Hér hefur verið vakin athygli á þeim tveim tegundum snigla sem fólk helst grunar um græsku og gera sér ferð með til Náttúrufræðistofnunar. Vonandi verður þessi umfjöllun til að spara einhverjum sporin á Hlemm. En verði stórir rauðir eða rauðleitir sniglar á vegi fólks er það áfram hvatt til að koma þeim til Náttúrufræðistofnunar til skoðunar eða láta vita á annan hátt. Með því móti verður grunnur lagður að landnámssögu spánarsnigils á Íslandi. Án aðstoðar athuguls fólks verður sagan ekki skráð eins vel og æskilegt er.

 

Að lokum, þeir sem finna spánarsnigla og eiga þess ekki kost að koma þeim til skila eru eindregið minntir á að sniglar þessir eru ekki á vetur setjandi og skulu sannarlega teknir af lífi, án dóms og laga.

 

Meira um spánarsnigla