Spánarsnigill snemma á ferð

Venjulega sjást spánarsniglar ekki fyrr en síðsumars en þá hafa þeir náð verulegri stærð og eiga ekki auðvelt með að leynast lengur. Það eru einkum ungir sniglar sem grafa sig niður í jarðveg á haustin og blunda þar á meðan vetur gengur yfir.

Á síðasta sumri vöknuðu grunsemdir um að spánarsniglar væru að komast í þá stöðu að þeim gæti farið að fjölga á höfuðborgarsvæðinu. Það tekur nýja landnema venjulega nokkurt árabil að hreiðra um sig og skjóta rótum áður en til umtalsverðrar fjölgunar kemur. Ætla má að síðastliðinn vetur hafi verið sniglunum frekar hagstæður, því snjór á jörð er lífríki í dvala til góðs.


Ungur spánarsnigill (Arion lusitanicus) á Ólafsfirði 29. maí 2008. Ljósm. Erling Ólafsson.

Fólk er aftur hvatt til að fylgjast vel með þeim rauða. Hér á Náttúrufræðistofnun verður reynt að fylgjast sem best með því hvernig landnámi spánarsnigils vindur fram á næstu árum. Þess vegna er mjög æskilegt að þeim spánarsniglum sem fólk verður vart við verði komið til stofnunarinnar til að hægt sé að staðfesta greiningu þeirra. Menn rugla stundum ýmsum öðrum tegundum snigla við spánarsnigla. Hins vegar ef fólk á þess ekki kost að koma þeim til skila skal ítrekað að spánarsniglum skal komið fyrir kattarnef snarlega.

Meira um spánarsnigla.