Litir náttúrunnar - Ný sýning á Hlemmi


Sýningin „Litir náttúrunnar“ í biðstöð Strætó á Hlemmi. Ljósm. Anette Th. Meier.

Jarðefni geta verið kristölluð og samsett úr steindum, eða ókristölluð úr gleri eða öðru myndlausu efni. Litur steinda og glers kemur til vegna þess að efnið endurkastar ljósi af ákveðnum bylgjulengdum, gleypir það í sig eða hleypir ákveðnum bylgjulengdum í gegn.
Flest algeng léttari frumefni, eins og kísill, súrefni og magnesíum, hafa lítil áhrif á ljós og valda því ekki litum. Slík efni eru gjarnan hvít eða litlaus. Algengustu litavaldar í steinum eru svokallaðir hliðarmálmar, s.s. járn, mangan og króm, og tengjast litaáhrifin rafeindaskipan þeirra. Af þessum efnum er járn (Fe) lang algengast í jarðskorpunni og er járn því algengasta orsök lita í steinum.

Járn kemur fyrir í ýmsum steindum og veldur oftast rauðum, gulum, brúnum og svörtum litum. Af þessum steindum má segja að hematít (Fe2O3) sé algengasti litavaldurinn, oftast sem óhreinindi í öðrum efnum. Nafnið hematít kemur úr grísku (haima = blóð) og þýðir blóðsteinn. Í massívu kristölluðu formi er hematít grátt eða svart en sem fínkornótt duft er það rautt. Goethít (FeO∙OH) gefur brúnan eða gul- eða rauðleitan lit. Eitt elsta litarefni í mannkynssögunni er okkur (e. ochre) – leir litaður með steindunum hematíti og goethíti.

 

 

 

Rautt hematít Rauður leir
Hematít. Ljósm. Anette Th. Meier. Rauður leir er litaður af hematíti.Ljósm. Anette Th. Meier.

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands sáu um að koma upp sýningu um liti náttúrunnar; Kristján Jónasson jarðfræðingur skrifaði texta, Anette Th. Meier, Birta Bjargardóttir og Kjartan Birgisson sáu um hönnun, útlit og uppsetningu sýningarinnar. Strætó bs. og starfsfólki Strætó á Hlemmi er þakkað fyrir velvild og aðstoð.

Sýningin „Litir náttúrunnar“ mun standa fram á haust, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvað tekur við af þeirri sýningu.