Hvítabirnir á Íslandi

Sum ár hafa komið hingað tugir hvítabjarna. Árið 1274 er t.d. getið um 22 dýr og 27 árið eftir. Á síðustu öld er vitað um a.m.k. 71 dýr í 59 tilvikum. Um þriðjungur þeirra (27 dýr) sáust hafísveturinn 1917—18.

Náttúrufræðistofnun Íslands heldur gagnagrunn um komur hvítabjarna til landsins.


Staðir þar sem hvítabirnir hafa sést á Íslandi. Notast er við 10 x 10 km reitakerfi og táknar hver punktur að eitt eða fleiri dýr hafa sést í þeim reit. Oftast er um lifandi dýr að ræða en stundum dauð eða beinaleifar. Í miklum harðindavetrum hefur hafís náð að teygja sig langt suður með landinu.

Stærsta rándýr á þurrlendi

Hvítabjörn er stærsta rándýr sem lifir á þurrlendi jarðar. Hér eru nokkrar staðreyndir um hvítabjörn:

 

Stærð: 240—260 cm, mesta lengd 3 m

Hæð: 100 cm, mest 130—cm, á herðakamb

Þyngd: 400—600 kg, mest 800 kg, birnur helmingi minni

Feldur: Gegnsæ hár á kolsvartri húð

Hæsti aldur: 20—25 ár úti í náttúrunni, 30 ár í dýragörðum

Kynþroski: Birnur 4—5 ára, birnir 5—6 ára

Fjöldi húna: Oftast tveir og vega aðeins um 600 gr við fæðingu

Félagskerfi: Hvítabirnir eru einfarar, en húnar fylgja birnu á þriðja ár

Fæða: Einkum selur (hringanóri)

Gangur/hlaup: Skeið, 3—6 km á klst, en stuttir sprettir á allt að 40 km hraða

Sund: Hraði 10 km/klst, vegalengd allt að 100 km, getur kafað í 2 mínútur

 

Talið er að hvítabirnir í heiminum séu 20—25 þúsund, flestir í N-Kanada. Þeir eru á alþjóðlegum válista (í yfirvofandi hættu/VU) og bannað er að drepa þá nema í sjálfsvörn. Frumbyggjar hafa þó veiðikvóta.

 

 

 

Heimildir og mynd:

Jóhannes Áskelsson 1961. Um íslenzka steingervinga. Bls. 47—63 í: Náttúra Íslands. Almenna Bókafélagið, Reykjavík. 322 bls.

Páll Hersteinsson (ritstj. og aðalhöfundur) 2004. Íslensk spendýr. Með vatnslitamyndum og skýringarmyndum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Vaka-Helgafell, Reykjavík. 344 bls.

Ævar Petersen og Þórir Haraldsson 1993. Komur hvítabjarna til Íslands fyrr og síðar. Bls. 74—78 í: Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson (ritstj.). Villt íslensk spendýr. Hið íslenska náttúrufræðifélag — Landvernd, Reykjavík. 351 bls.